Fréttasafn15. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Af hverju hugvit?

Við þurfum áherslu á hugvit til þess að tryggja að lífsskilyrði á Íslandi verði ekki verri árið 2030 en þau eru í dag. Við erum að taka fyrstu skrefin inn í stærstu tæknibyltingu allra tíma og það eru góðar líkur á því að innan tveggja áratuga geti sjálfvirknivæðing þurrkað út um helming allra starfa á bandarískum vinnumarkaði. Þau störf sem koma í stað þeirra verða að öllum líkindum störf sem byggja á hugviti; þekkingu og hugmyndaauðgi. Þetta kemur meðal annars fram í grein sem Hlynur Hallgrímsson, hagfræðingur og sérfræðingur á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins, skrifar á vef Skýrslutæknifélags Íslands en hann er að vinna að verkefninu xHugvit sem Hugverkaráð SI setti í gang fyrir skömmu.

Hlynur segir ýmsar leiðir til að nálgast umræðu um mikilvægi hugvits og bendir á fjórðu stoðina í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar til viðbótar við hinar þrjár sem tilheyra sjávarútvegi, áliðnaði og ferðaþjónustu. Hann segir fjórðu stoðina bera hin ýmsu nöfn, stundum er hún kölluð „alþjóðageirinn“, sökum þess að um er að ræða fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði og eru í raun ekki bundin, nema að mjög litlu leyti, náttúruauðlindum nærumhverfis síns. Því gætu þau fyrirtæki sem teljast til þessarar fjórðu stoðar „allt eins“ starfað annars staðar en á Íslandi. Stundum er fjórða stoðin kölluð hugverkagreinar. Öðrum stundum er fjórða stoðin einfaldlega kölluð „eitthvað annað“, sökum þess hve ólík fyrirtækin eru sem mynda hana. Hann segir að eðlilegast væri að tala um þessa fjórðu stoð sem hugvitsgeirann og bendir á að vaxtarmöguleikar útflutnings á vörum og þjónustu hugvitsgeirans eru ekki líkir nokkru öðru sem við þekkjum.

Á vef Skýrslutæknifélags Íslands er hægt að lesa greinina í heild sinni.