Fréttasafn12. sep. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Afnema þarf þak til að gera Ísland samkeppnishæft

„Stærsta einstaka aðgerðin sem stjórnvöld geta ráðist í til þess að gera Ísland samkeppnishæft er að afnema þak vegna endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði,“ segir Tryggvi Hjaltason, framleiðanda hjá CCP og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, í frétt Markaðarins sem fylgir Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um söluna á CCP til fyrirtækis í Suður-Kóreu fyrir 48 milljarða króna. 

Tryggvi segir söluna vera mikla viðurkenningu fyrir íslenska hugverkageirann. „Salan setur okkur að mörgu leyti á kortið og er vonandi upphafið að einhverju stóru. Hún staðfestir að stórt tölvuleikjafyrirtæki, sérfræðingar í þessum bransa, telur að hugvit sem var byggt upp alfarið hér á landi sé 48 milljarða króna virði.“

Stór alþjóðleg verkefni ef þakinu væri lyft af

Tryggvi segir í fréttinni að í hugverkageiranum skipti það miklu máli að umhverfið sé alþjóðlega samkeppnishæft. Hann segir það vera eitthvað sem mörg stórfyrirtæki horfi til og það sé mikils að vinna. „Við gætum laðað hingað til lands stór alþjóðleg verkefni með því að lyfta þakinu af.“ Með hverju verkefni verði til bæði þekking og verðmæti í íslenska hagkerfinu sem að jafnaði auki líkurnar á fleiri slíkum verkefnum. Tryggi segir jafnframt að stjórnvöld hafi heitið því í fjármálaáætlun sinni að afnema þetta þak. „Það hafði áhrif við söluna.“ Hann segir þetta skipta máli þegar fyrirtæki spyrji sig hvar þau eigi að staðsetja uppbyggingu á rannsóknum og þróun í framtíðinni. „Gera þau það í íslenska hagkerfinu, því við erum samkeppnishæf, eða gera þau það í öðrum löndum því við erum ekki samkeppnishæf? Það er stóra spurningin. Salan er að setja okkur á kortið og staðfestir að umhverfið hér á landi sé að verða samkeppnishæft. Við erum allavega á leiðinni í þá áttina.“ 

Markaðurinn / Frettabladid, 12. september 2018.