Fréttasafn



4. apr. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Afnema þarf þak til að ná metnaðarfullum markmiðum

Útflutningstekjur þurfa að vaxa um milljarð á viku hverri næstu tvo áratugi til að standa undir þeim lífsgæðum sem við þekkjum. Það verður ekki gert nema okkur takist að virkja hugvitið enn frekar til þess að skapa aukin verðmæti og draga um leið úr sveiflum. Fyrsta skrefið er að afnema þak á endurgreiðslur vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf. Slíkt hvetur til nýsköpunar en þakið sendir þau röngu skilaboð að um leið og fyrirtæki stækka eigi þau betur heima annars staðar en á Íslandi. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni sem birtist í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni Afnemum þakið.

Í greininni segir Sigurður að mörg ríki leitist við að örva nýsköpun með skattalegum hvötum og að hér á landi hafi slíkir hvatar þegar sannað gildi sitt en betur má ef duga skal til þess að ná metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda. Vísinda- og tækniráð hefur sett markmið um að fjárfesting í rannsóknum og þróun nemi 3% af landsframleiðslu árið 2024 en hlutfallið er nú ríflega 2%. Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins, Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfni, kemur fram að fjárfesting í rannsóknum og þróunarstarfi þurfi að aukast um 40 milljarða á ársgrundvelli til að ná markmiðunum. Hann segir að afnám þaksins sé fyrsta skrefið að því marki. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.