Fréttasafn



14. ágú. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Áform um lagasetningu ógna íslenskum kvikmyndaiðnaði

Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda leggjast alfarið gegn áformum um frumvarp til breytingar á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Þetta kemur fram í umsögn sem send hefur verið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

SI og SÍK telja ótímabært að ráðast í nokkrar breytingar á lögunum í ljósi þess að framtíðarstefna kvikmyndagreinarinnar sé nú í mótun hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og að heildarmat á áhrifum fyrirhugaðra breytinga liggi ekki fyrir.

Í umsögninni segir að þær tillögur sem komi fram í áformunum gangi í berhögg við upprunalegan tilgang laganna og séu í mótsögn við áherslur ríkisstjórnarinnar. Þá segir að það verði aldrei lögð nægilega mikil áhersla á að miðlun íslensks kvikmynda- og sjónvarpsefnis sé áhrifaríkasta menningarmiðlun sem þjóðin á kost á. Þessi staðreynd sé enn mikilvægari þegar litið sé til þess að íslensk tunga eigi undir högg að sækja. Því sé afar áríðandi að íslensku kvikmynda- og sjónvarpsefni sé haldið sem hæst á lofti.

Tekjur ríkissjóðs lækki ef tillagan gengur eftir

Í umsögninni er vitnað til umsagnar KPMG og VÍK lögmannsstofu þar sem kemur skýrt fram að allar takmarkanir og/eða þak á endurgreiðslur muni fyrst og fremst hafa þau áhrif að tekjur ríkissjóðs muni lækka og jafnframt að tekjur ríkissjóðs hafi ávallt verið hærri en kostnaður ríkissjóðs af endurgreiðslukerfinu. Ljóst sé því að sparnaður ríkissjóðs verði enginn vegna hinna fyrirhuguðu breytinga, þær muni þvert á móti leiða til neikvæðra áhrifa og minni tekna.

Þá segir í umsögninni að þess megi vænta að kvikmyndaiðnaðurinn dragist saman og virðisauki og tekjuskattur minnki. Þá muni fjöldi erlendra kvikmyndagerðarmanna og ferðamanna minnka og ábati ríkisins muni því líklega dragast verulega saman. Í umsögninni er bent á að í ljósi þess frábæra árangurs sem endurgreiðslukerfið hafi leitt af sér fyrir framleiðslu íslensks kvikmynda- og sjónvarpsefnis sé afar mikilvægt að ekkert sé aðhafst sem gæti stefnt þeim árangri í hættu.

SI og SÍK óska þess að umræddar tillögur verði látnar niður falla og það er mat þeirra að óskynsamlegt sé að ráðast í breytingar sem muni hafa ófyrirséð áhrif á framtíð kvikmyndaiðnaðarins.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast fylgiskjalið sem fylgir umsögninni.

mbl.is, 14. ágúst 2019.

Rás 1/Rás 2, 15. ágúst, 2019

Kjarninn, 15. ágúst 2019

RÚV, 15. ágúst 2019.