Fréttasafn



15. jan. 2019 Almennar fréttir

Áfram dregur úr fjölgun launþega og atvinnuleysi eykst

Áfram dregur úr fjölgun launþega og atvinnulausum fjölgar sýna nýjar mælingar Hagstofunnar. Fjölgun launþega í hagkerfinu öllu mældist þannig 1,9% í október síðastliðnum frá sama mánuði árinu áður en ekki hefur mælst minni aukning síðan í júlí 2013. Þróunin í viðskiptahagkerfinu, þ.e. hagkerfið án hins opinbera, hefur verið öllu meira afgerandi en í október mældist einungis 1,3% fjölgun launþega sem er minnsti vöxtur í fjölda launþega sem mælst hefur síðan í  apríl 2011 eða síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér í þeirri efnahagsuppsveiflu sem nú virðist vera að líða undir lok.

Samhliða þessu hefur atvinnuleysi verið vaxandi. Samkvæmt skráningu atvinnulausra á vinnumiðlunum, þ.e. þeim sem sækja um atvinnuleysisbætur í hverjum mánuði, var atvinnuleysi 2,5% í nóvember síðastliðnum samanborið við 2,1% í sama mánuði 2017. Hefur atvinnuleysi á þennan mælikvarða verið að aukast frá því í apríl í fyrra. Að meðaltali fjölgaði um 885 á atvinnuleysisskrá í nóvember 2018 frá nóvember 2017.

Ofangreindar tölur staðfesta framhald á þeirri þróun sem fjallað var um í greiningu SI sem birt var í nóvember á síðasta ári þar sem sagt var að eftir efnahagsuppsveiflu síðustu ára væru nú merki um hægari hagvöxt víða í hagkerfinu um þessar mundir og ekki síst á vinnumarkaði. Benda tölurnar til þess að það hafi hægt hratt á hagvextinum á seinni helmingi síðastliðins árs. Reikna má með því að sú þróun haldi áfram en spáð er um 2% hagvexti í ár en hann var 7,4% árið 2016 og 4,0% árið 2017.  

Fjoldi-launthega-12-man.breyting

Atvinnuleysi-skv-skraningu-a-vinnumidlunum