Fréttasafn28. apr. 2016 Almennar fréttir

Áfram Ísland!

Í Viðskiptablaðinu í dag birtist eftirfarandi pistill eftir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.

Það styttist í að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mæti til leiks á EM í Frakklandi í júní. Það er tilhlökkunarefni og við munum fylgjast stolt með okkar mönnum keppa við þá bestu. En að komast í hóp þeirra bestu er ekki sjálfgefið. Það er hörkuvinna þar sem skýr stefna þarf að vera til staðar. Allir þurfa að leggjast á eitt til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt þar sem hver og einn hefur hlutverki að gegna. Þjálfararnir Lars og Heimir hafa lagt línurnar. Þeim hefur tekist að setja saman hóp sem vinnur vel saman þar sem allir stefna að sama markinu. 

Getum við ekki horft á íslenskt viðskiptalíf svipuðum augum? Við verðum að bjóða samkeppnishæft umhverfi, leikreglurnar þurfa að vera skýrar og við þurfum að hafa sömu sýn á hvert við viljum fara til að ná sigri. Stjórnvöld hafa að undanförnu unnið gott verk í að skapa rekstrarumhverfi þar sem fyrirtæki hafa alla möguleika á að blómstra. Það sér fyrir endann á fjármagnshöftum og umbætur á umhverfi alþjóðlegrar starfsemi eru í farvatninu. En betur má ef duga skal. Það eru mörg verkefni sem þarf að leysa til viðbótar þannig að Ísland bæti sig hraðar en keppinautarnir. Þó ekki sé búið að ákveða dagsetningu þingkosninga þá eru aðeins örfáir mánuðir þar til landsmenn geta notað atkvæði sitt. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða málefni verða sett á oddinn hjá frambjóðendum. Kannski þurfum við nokkur eintök af „Lars og Heimi“ í stjórnmálin?

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI
Birt í Viðskiptablaðinu 28. apríl 2016