Fréttasafn



11. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Nýsköpun

Áfram skaðleg áhrif með ríkiseinokun á útgáfu námsefnis

Áframhaldandi ríkiseinokun á útgáfu á námsefni fyrir grunnskóla mun hafa áfram skaðleg áhrif á alla sjálfstæða lögaðila, hvort sem að það eru kennarar, útgefendur eða nýsköpunar- og tæknifyrirtæki sem starfa á sviði námsgagnagerðar. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka menntatæknifyrirtækja í umsögn sem send hefur verið allsherjar- og menntamálanefnd. Þar segir jafnframt að ef við berum okkur saman við nágrannalönd séum við eftirbátar þegar komi að fjölbreytni í námsgagnagerð. „Ætli stjórnvöld sér að tryggja komandi kynslóðum þá framtíðarfærni sem nú þegar er orðið auðséð að vanti, teljum við nauðsynlegt að stjórnvöld taki stór skref í átt að nútímavæðingu náms og aukinni nýtingu á bestu tækni og vísindum sem völ er á hverju sinni inn í grunn- og framhaldsskólum.“

Frumvarpið tryggir áframhaldandi ríkiseinokun á útgáfu námsefnis

Samtökin gera athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins sem tryggi í raun áframhaldandi ríkiseinokun á útgáfu námsefnis en í 5. gr. frumvarpsins tölulið e. segir að verkefni Mennta- og skólaþjónustustofu verði að: ,,sjá skólum fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum á margs konar formi og styðja við notkun þeirra í skólum, m.a. með ráðgjöf, leiðsögn, námskeiðum og útgáfu leiðbeininga og fræðsluefnis."

Þá kemur fram í umsögninni að markaðsbrestur vegna einokunar ríkisins á þessum markaði hafi komið í veg fyrir eðlilegan vöxt menntatækniiðnaðar hérlendis þar sem markaðsforsendur séu litlar sem engar. Árgangur fyrirtækja í eigin landi sé ein af helstu forsendum fyrir vexti, bæði til að halda áfram þróun á framúrskarandi menntatæknitólum fyrir íslenskt skólakerfi og gefi bestu lausnunum færi á alþjóðlegum vexti sem skapar auknar útflutningstekjur.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.