Fréttasafn



28. jún. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Orka og umhverfi

Áframhaldandi sókn græns orkusækins iðnaðar

Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins efndu til opins fundar í Kaldalóni í Hörpu sem var sendur út beint. Á fundinum var horft til framtíðar og leitast við að svara því hvort Ísland er reiðubúið að taka á móti nýjum grænum orkusæknum iðnaði líkt og stórum gróðurhúsum, ofurgagnaverum, rafeldsneytisvinnslum eða rafhlöðuverksmiðjum. Varpað var fram spurningum um hvort við höfum þá innviði sem þarf, hvernig tryggja eigi aðstöðuna, orkuna og samstarf fyrirtækja, ríkisvalds, sveitarstjóra og annarra sem málið snertir.

Magnús Þór Gylfason, forstöðumaður hjá Landsvirkjun, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, stýrðu fundinum. Í upphafi fundarins sögðu þau fundinn vera lið í sameiginlegri vegferð og samstarfi Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins um að benda á þau tækifæri og þann ávinning fyrir þjóðarbúið sem felst í áframhaldandi sókn orkusækins iðnaðar og grænnar atvinnuuppbyggingar til framtíðar. Þau nefndu að til þess að sækja þessi ótalmörgu tækifæri þurfi að bera kennsl á þau og stefna saman á að þau verði að veruleika. Þar geti Landsvirkjun og Samtök iðnaðars lagt sitt af mörkum. Magnús Þór og Sigríður nefndu greinarskrif Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins þar sem fjallað var um tækifæri í grænni atvinnuuppbyggingu, sýn og stefnu fyrir gagnaversiðnað, sjónum beint að framleiðslu á hátæknimatvælum, vetni og rafeldsneyti, rafhlöðuframleiðslu og fleiri tækifærum. Þau sögðu Ísland eiga í harðri alþjóðlegri samkeppni um verðmætasköpun og miklu skipti að pólitísk sýn sé skýr um áframhaldandi græna atvinnuuppbyggingu. Á fundinum yrði bent á hver tækifærin eru og hvað þurfi að koma til svo okkur sé kleift að sækja þau í þágu hagsmuna Íslands til framtíðar.

Umhverfi nýfjárfestinga á Íslandi flóknara

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, kynnti meðal annars niðurstöður úr könnun um sjálfbærni sem gerð var á lykilmörkuðum þar sem Ísland er í 7. sæti á milli Kanada og Japans. Hann sagði það vera frábæra niðurstöðu en Ísland ætti að vera í hópi með Svíþjóð, Danmörku og Noregi sem skoruðu hærra. Þá sagði hann frá viðtölum Deloitte við erlenda fjárfesta sem hafa kannað möguleika á fjárfestingu á Íslandi undanfarin ár þar sem greina mætti sex meginstef; umhverfi nýfjárfestinga flóknara en búist var við, fyrirsjáanleiki og samræmi skortir í skattamálum, óhagstæður samanburður við fjárfestingarumhverfið á Norðurlöndum, samkeppnistaða Íslandsstofu erfið, kunningjasamfélagið á Íslandi skapar áskoranir og sérfræðingar misjafnir. Hann sagði að niðurstöðurnar sýndu að mýtan um að hlutirnir reddist á Íslandi stæðist ekki. Þá kynnti Pétur Græna dregilinn sem er verkefni undir forystu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í samstarfi við atvinnuþróunarfélög um landið og fjölmargar ríkisstofnanir. Þar á að tengja saman lykilstefnur stjórnvalda með það að markmiði að gera ferla skilvirkari. 

Ætti að vera sama hugsun í orkusæknum iðnaði og nýtingu á auðlindum hafsins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, voru þátttakendur í umræðum sem Sigríður Mogensen stýrði. Þar sagði Hörður meðal annars að við værum ekki að taka yfir eldsneytisframleiðslu, rafhlöðuframleiðslu  eða matvælavinnslu í heiminum heldur að ná áhugaverðum pörtum og þar ættum við gríðarlega mikla möguleika ef við höfum áhuga á því. Hann sagði að við þyrftum að vanda okkur, leggja mikið á okkur og vinna mjög þétt saman. Þórdís sagði að þau tækifæri sem Hörður nefndi þurfi öll eitt sameiginlegt og það væri raforka. Hún sagði að við gætum ekki tekið þátt í þessu, jafnvel þó við séum ekki að fara að skaffa öllum Bandaríkjunum hvorki rafhlöður eða rafeldsneyti, eða farið í þetta á einhverjum alvöru skala þar sem við erum raunverulega að búa til eftirsóknarverð störf, auka útflutningstekjur, byggja upp hugvit, sækja erlenda fjárfestingu og allt þetta sem við segjumst vilja gera, nema það sé til raforka. Sigurður sagði að ef þetta væri borið til dæmis saman við aðra auðlind sem við þekkjum vel, sem er auðlind hafsins, að þá erum við öll sammála um það að nýta hana eins mikið og náttúran leyfir. Hann sagði að við værum með ákveðið kerfi í kringum það og svo sé bara veitt það magn sem að sérfræðingar segja að sé hægt að veiða og við seljum aflann að mestu leyti erlendis. Hann sagði að það væri ekki sami skilningur á þessu þegar kæmi að orkumálunum og orkusæknum iðnaði. Í sjávarútvegi myndi engum detta það til hugar að veiða bara 5% af aflanum eða 2% af því að við þurfum ekki meira innanlands. Auðvitað veiðum við eins og náttúran leyfir og seljum út og byggjum þar með undir okkar lífsgæði. Sigurður sagði það væri æskilegt að sama hugsun ætti sér stað í orkumálunum og varðandi orkusækinn iðnað. Þórdís sagði að heimurinn væri búinn að taka ákvörðun um að minnka losun og að því fælust mikil tækifæri. Hún spurði hvort við ætlum að vera með í því til þess að bæta lífskjör og lífsgæði og græða á því? Eða ætlum við ekki að vera með? Hún sagði að þetta muni gerast alveg óháð því hvað við gerum en það væri undir okkur komið hvort við ætlum að vera með.

Atvinnuuppbygging á grunni endurnýjanlegrar orku og sjálfbærni

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, sagði meðal annars í sínu erindi að verðmætasköpun þurfi að aukast til muna á næstu árum ef við ætlum að viðhalda lífsgæðum og byggja áfram framsækið, opið og öflugt samfélag. Það sé auðvelt að færa sannfærandi rök fyrir því að Ísland sé um margt land tækifæranna og það væri tækifæri fyrir Ísland til að verða á næsta áratug meðal fremstu þjóða heims hvað varðar atvinnuuppbyggingu á grunni endurnýjanlegrar orku og sjálfbærni. Hann sagðist vera í forsvari fyrir samfélag norður í landi sem hafi séð umtalsverðar breytingar á síðustu árum tengdar innviða- og atvinnuuppbyggingu í iðnaði sem byggi á skynsamlegri nýtingu orkuauðlinda í Þingeyjarsýslum. Eftir hægfara og um margt mjög sársaukfullt tímabil stöðnunar í atvinnulífi á svæðinu utan þess sem þó byggðist upp tengt ferðaþjónustu frá síðustu aldamótum, hafi trú fólks á framtíðina, trú fólks á samfélagið og atvinnulífið gerbreyst. Með tilkomu fyrsta iðnfyrirtækisins á Bakka við Húsavík hafi nú opnast enn fleiri tækifæri til að taka næstu skref á grunni orkusækins græns iðnaðar. Kristján Þór sagði frá grænum iðngörðum sem væru í sinni einföldustu mynd iðnaðarsvæði þar sem fyrirtæki eiga samstarf innbyrðis og við nærsamfélagið um að minnka úrgang og mengun, á hagkvæman hátt deila auðlindastraumum á borð við vatn, orku, innviði, upplýsingar, eða hráefni og þannig styðja sjálfbæra þróun með þó þann ásetning að auka efnahagslegan ávinning og bæta umhverfisleg gæði. Í niðurlagi erindis síns hvatti hann þá sem væru á fundinum til að vera sendiherra nýrra tíma og tala skýrt þegar komi að því hvert við stefnum. „Við eigum að sækja hin fjölbreyttu tækifæri sem til staðar eru á Íslandi í krafti endurnýjanlegrar orku og skýrrar stefnu um bætta nýtingu auðlindastrauma. Við eigum að vera djörf og ekki sætta okkur við að geta ekki keppt um mest spennandi atvinnutækifæri komandi kynslóða. Við verðum að tala skýrt fyrir viðhorfsbreytingu sem er nauðsynleg víða til að Ísland geti keppt um áhugaverð alþjóðleg fyrirtæki og lífsgæði framtíðar, m.a. með skynsamlegri og nauðsynlegri nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda okkar.“

Snýst um hvað við erum við tilbúin að gera

Jóhann Þór Jónsson, forstöðumaður hjá atNorth, Sólveig Bergmann, yfirmaður samskipta hjá Norðuráli, og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, voru þátttakendur í umræðum sem Magnús Þór Gylfason stýrði.Jóhann Þór sagði að vinna þurfi áfram að þeim atriðum sem Samtök gagnavera hafa verið að leggja upp á undanförnum árum sem væru ekkert flókin, þetta snúist um einfaldleika, sýnileika, áreiðanleika og fyrirsjáanleika. Hann benti einnig á að að stjórnvöld ættu að huga að því að nýta hagræna hvata til þess að staðsetja gagnver á stöðum sem ekki kalli á gríðarlega fjárfestingu í innviðauppbyggingu. Kristján Þór sagði að það væri þversögn að þegar allir vilja tækifærin í sínu þorpi þá hafi það oft leitt til þess að ekkert gerist. Það sé þess vegna mikilvægt að sveitarfélögin geti líka forgangsraðað og sagt beint út hvar væru jafnvel skýrari tækifæri heldur en annars staðar í því að koma hjólunum strax af stað. Hvar innviðir væru til staðar og hvar skynsamlegt væri að byggja upp innviði á grunni einhverra sem fyrir eru. Sólveig sagðist skilja vel að við vildum fjölga stoðunum, séstaklega eftir ár eins og í fyrra þar sem Covid þurrkaði út stærstu stoðina okkar. En við kæmum alltaf að upphafinu, hvað við værum tilbúin að gera, hún spurði: ætlum við að hafa framboð af raforku, ætlum við að tryggja að það sé fyrirsjáanleiki fyrir þá sem vilja koma hingað og fjárfesta og ætlum við að bjóða áfram raforku á samkeppnishæfu verði. Hún sagði þetta vera lykilspurningarnar og þetta væri ekki í höndum sveitarfélaganna. 

Myndir

Á Facebook er hægt að nálgast fleiri myndir frá fundinum.

Myndir/Birgir Ísleifur.

Si_landsvirkjun_kaldalon-1Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, og Magnús Þór Gylfason, forstöðumaður hjá Landsvirkjun.

Si_landsvirkjun_kaldalon-2

Si_landsvirkjun_kaldalon-4Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Si_landsvirkjun_kaldalon-10Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Si_landsvirkjun_kaldalon-15

Si_landsvirkjun_kaldalon-23Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Si_landsvirkjun_kaldalon-29Magnús Þór Gylfason, forstöðumaður hjá Landsvirkjun, Jóhann Þór Jónsson, forstöðumaður hjá atNorth, Sólveig Bergmann, yfirmaður samskipta hjá Norðuráli, og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Si_landsvirkjun_kaldalon-26

Si_landsvirkjun_kaldalon-5

Si_landsvirkjun_kaldalon-3

Si_landsvirkjun_kaldalon-22

Si_landsvirkjun_kaldalon-33

 

Myndbönd

Hér er hægt að nálgast streymi fundarins.

Pétur Þ. Óskarsson, Íslandsstofu

https://vimeo.com/567407774

Umræður Þórdís, Sigurður og Hörður

https://vimeo.com/567411155

Kristján Þór Magnússon, Norðurþing

https://vimeo.com/567419675

Umræður Jóhann, Sólveig og Kristján Þór

https://vimeo.com/567422782

 

Auglýsingar

Auglysing_loka_1624030326664

Mynd_1624291638106

 

Umfjöllun

mbl.is, 24. júní 2021.

Fréttablaðið, 24. júní 2021.