Áframhaldandi vöxtur í hugverkaiðnaði
„Við erum að sjá áframhaldandi vöxt í kortunum núna, vonandi á þessu ári líka. Hann hefur í rauninni verið að tvöfaldast á fimm árum í útflutningstekjum. Við höfum líka sagt að hugverkaiðnaður geti, ef rétt er á málum haldið, orðið verðmætasta útflutningsstoðin fyrir lok þessa áratugar og ég bara ætla að halda mig við þá spá,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasvið SI, meðal annars um hugverkaiðnaðinn sem skilaði 300 milljörðum útflutningstekna á síðasta ári í viðtali Magdalenu Önnu Torfadóttur í Dagmálum á mbl.is. Þegar Sigríður er spurð í hvaða geirum innan hugverkaiðnaðarins hún búist við mestum vexti segist hún telja það vera í þeim greinum þar sem er byggt er á djúpum rannsóknum og langtímaþróun. „Ég myndi segja að það væru mikil tækifæri í vexti lyfjaiðnaðarins með Alvotech og eins og við þekkjum líka í líf- og heilbrigðistækni. Dæmi um fyrirtæki á því sviði eru Kerecis, Nox Medical og Össur. Það eru gríðarleg vaxtartækifæri þar,“ segir Sigríður og bætir við að það séu auðvitað líka mikil vaxtartækifæri í tengslum við gervigreindina og svo í tölvuleikjaiðnaði.
Óvissa í atvinnulífinu viðvarandi ástand
Í þættinum ræðir Magdalena við Sigríði um hugverkaiðnaðinn, áhrif tæknibreytinga á íslenskan iðnað og áhrif hækkunar veiðigjalda á atvinnugreinar. Meðal þess sem Magdalena spyr Sigríði um er yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins þar sem kom fram að samtökin hafi áhyggjur af því að hækkun veiðigjalda muni skapa óvissuálag á aðrar atvinnugreinar. Sigríður segir að vissulega sé staðan áhyggjuefni fyrir mörg fyrirtæki, það nái þó ekki til allra greina og óvissan í atvinnulífinu hafi verið viðvarandi ástand um nokkurt skeið. „Óvissa er í rauninni orðin nýja normið. Hún hefur verið af margvíslegum ólíkum ástæðum á undanförnum árum,“ segir Sigríður og bætir við að hún kannist ekki við að það sé komið óvissuálag á allar atvinnugreinar. „Einu aðilarnir sem eru bærir til þess í rauninni að svara þessu með óyggjandi hætti eru auðvitað bankarnir. Hvernig þetta birtist í hvernig lánskjör eru að þróast og svo framvegis.“ Sigríður segir þó stöðuna slæma fyrir mörg tæknifyrirtæki sem þjónusti sjávarútveginn beint eða óbeint. „Við höfum lýst yfir áhyggjum af stöðunni hjá mörgum fyrirtækjum.“ segir Sigríður.
ViðskiptaMogginn / Dagmál, 23. júlí 2025.
mbl.is, 23. júlí 2025.
mbl.is, 24. júlí 2025.
mbl.is, 24. júlí 2025.
Magdalena Anna Torfadóttir og Sigríður Mogensen.