Fréttasafn



19. okt. 2017 Almennar fréttir

Ágætis tími til að lækka tryggingagjaldið

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um tryggingagjaldið sem þrátt fyrir að hafa lækkað um 0,94 prósentustig hefur hækkað um allt að þriðjung í krónum talið á undanförnum fjórum árum. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs verða tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldinu liðlega 99 milljarðar króna. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun gjaldið því hafa hækkað um 30 milljarða króna frá árinu 2013.

Á sama tíma og tryggingagjaldið hefur stórhækkað í krónum talið hefur verulega dregið úr atvinnuleysi sem er nú nálægt sögulegu lágmarki. Meðal þeirra sem rætt er við er Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, sem segir tryggingagjaldið hafa átt að lækka á þessu ári til þess að mæta miklum kostnaði við umsamdar launahækkanir og jöfnun lífeyrisréttinda. Það hafi hins vegar ekki verið gert.

„Það voru mikil vonbrigði þar sem ljóst var að kjarasamningar myndu ganga mjög nærri getu fyrirtækja og að mótvægisaðgerðir stjórnvalda væru nauðsynlegar til að kostnaðaraukinn færi ekki að stórum hluta út í verðlag.“

Nú þegar vísbendingar séu um að farið sé að hægja á fjölgun starfa myndi lækkun gjaldsins verða til þess að auka eftirspurn eftir vinnuafli. Það sé afar mikilvægt nú þegar teikn eru á lofti um að það sé að slakna á spennunni í hagkerfinu.

„Nú er ágætis tími til þess að lækka gjaldið og efna það loforð sem var gefið fyrir mörgum misserum,“ segir Ingólfur í Fréttablaðinu í dag.

Vísir, 19. október 2017.