Fréttasafn



18. nóv. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Áhersla á aðgerðir í loftslagsmálum vekur bjartsýni

Í síðdegisfréttum RÚV ræðir Hafdís Helga Helgadóttir, fréttamaður, við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, þar sem hann er staddur á ráðstefnu COP27 í Egyptalandi. Hann segir þetta vera vettvang fyrir iðnaðinn til að kynna sínar lausnir og kynnast lausnum annarra á sviði orku og loftslagsmála auk þess að leita eftir fjármögnum. „Hér eru ríki heims að kynna markmið sín og aðgerðir og fyrirtækin eru að sama skapi að kynna lausnir. Mér sýnist þróunin vera hraðari en vænta mátti og auðvitað skiptir það líka máli að stór ríki eins og Bandaríkin séu að setja loftslagsmál á oddinn. Hér eru fyrirtæki að kynna lausnir og hér eru fjármálastofnanir að leita hreinlega að verkefnum til þess að fjármagna,“ segir Sigurður.

Græn iðnbylting þar sem verið er að umbylta mörgum kerfum

Sigurður segir í frétt RÚV mikla áherslu á aðgerðir á ráðstefnunni vekja hjá sér bjartsýni. „Þetta er í rauninni græn iðnbylting þar sem er verið að umbylta mörgum kerfum í heiminum hvort sem það er á sviði orku eða iðnaðar eða vitundarvakningu um breytta lifnaðarhætti.“

Eigum á hættu að dragast aftur úr ef förum ekki að vinna að aðgerðum

Í fréttinni segir að Sigurður hefði viljað sjá Ísland nýta vettvanginn til að stíga fastar til jarðar í málaflokknum. „Ísland hefur staðið vel að vígi sögulega því við nýtum mikið af endurnýjanlegri orku en við eigum á hættu að dragast aftur úr ef við förum ekki úr fasa vitundarvakningar yfir í það að vinna að aðgerðum, að því að þróa lausnir og að því að fjárfesta í þeim og innleiða.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á fréttatímann.

RÚV, 17. nóvember 2022.