Fréttasafn3. jan. 2018 Almennar fréttir

Áhersla á umhverfismál og nýsköpun hjá MS

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, heimsótti höfðustöðvar MS í Bitruhálsi í Reykjavík í dag og hitti þar Ara Edwald, forstjóra MS, en fyrirtækið rekur fimm framleiðslustöðvar sem eru staðsettar í Reykjavík, Búðardal, á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.

MS leggur mikla áherslu á umhverfismál og nýsköpun í sínum rekstri og má nefna að nýverið var opnuð verksmiðja í Skagafirðinum þar sem framleiða á próteinduft og etanól úr mysu sem áður var fargað. Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga stofnuðu fyrirtækið Heilsuprótein sem rekur verksmiðjuna. Með þessari nýju framleiðslu er verðmætasköpun aukin og dregið er úr sóun þar sem unnið er með hráefni sem áður fór til spillis. Fyrirtækið er því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í umhverfismálum þar sem hráefnin eru nýtt  til fulls og er þetta gott dæmi um framlag atvinnulífsins til umhverfismála.

Unnið er markvisst að því að auka útflutning á vörum MS og þá sérstaklega hefur verið aukning í sölu á skyri sem meðal annars er selt í Bandaríkjunum, Norðurlöndunum, Sviss, Bretlandi, Írlandi og Möltu.