Fréttasafn



22. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki

Áherslur á leiguhúsnæði ekki rökstuddar

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í fréttum RÚV um ný áform innviðaráðherra að tvöfalda fjármagn til stofnframlaga til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hækka viðmið hlutdeildarlána til íbúðarkaupa. Í frétt RÚV kemur fram að Samtök iðnaðarins telji áherslur á leiguhúsnæði ekki rökstuddar. „Miðað við skoðanakannanir þá vill fólk búa í eigin húsnæði  þannig að maður hefði haldið að stjórnvöld mundu þá beina sjónum í þær áttir frekar en að stækka leigumarkaðinn mikið,“ segir Sigurður.

Uppfærsla hlutdeildarlána hvetur til frekari uppbyggingu

Í frétt RÚV kemur fram að SI fagni uppfærslu hlutdeildarlánanna. „Það mun eitt og sér væntanlega hvetja til frekari uppbyggingar vegna þess að verktakar geta þá selt eignir og farið af stað í ný verkefni,“ segir Sigurður.

Átti von miklu fleiri samningum um lóðaframboð

Einnig kemur fram í frétt RÚV varðandi framboð lóða þá sé einungis búið að gera samning við Reykjavíkurborg um að tryggja að lóðaframboð yrði í samræmi við íbúðafjölgun og að enn sé ósamið við önnur sveitarfélög um slíkt hið sama. Sigurður segir: „Við auðvitað áttum von á því að á þessum tíma væri búið að gera miklu miklu fleiri samninga. Það eru liðnir tólf mánuðir síðan þessi áform voru kynnt.“

Hér er hægt að horfa á fréttina í heild sinni.

RÚV, 21. júní 2023.