Fréttasafn



16. mar. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Áhrif á allar atvinnugreinar

Þó það reyni mest á ferðaþjónustuna í þessum aðstæðum þá má ekki gleyma því að áhrifin af þessu öllu saman koma við eiginlega flestar greinar, ef ekki allar. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í beinni útsendingu sjónvarpsþáttarins Í bítið á Stöð 2 í morgun þar sem rætt var um áhrif COVID-19 á atvinnulífið. Hann segir það koma fram til dæmis í minni eftirspurn, síminn hringi minna hjá fyrirtækjum og í framboðsvanda vegna þess að í framleiðslunni sé þegar orðið erfitt að fá aðföng erlendis frá. „Þannig að þetta mun auðvitað hafa heilmikil áhrif, reyna mikið á. Við létum gera könnun meðal okkar félagsmanna þar sem kemur í ljós að margir óttast að lenda í lausafjárvanda, margir óttast það að þurfa að fækka starfsfólki og finna fyrir talsverðum áhrifum af þessu þó þau séu ekki endilega komin fram núna. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnvöld bregðist við og mér fannst kynningin í síðustu viku skipta miklu máli þar. Aðallega skilaboðin um að stjórnvöld ætluðu sér að standa með fólkinu í landinu og fyrirtækjunum á erfiðum tímum. Við hlökkum til að sjá nánari útfærslur á því.“

Þá segir Sigurður í þættinum að skilaboð frá versluninni væri að birgðastaða væri góð og því engin þörf á því að hamstra. Einnig er rætt í þættinum um hlutfall endurgreidds virðisaukaskatt á endurbætur á húsnæði sem nú er 60% en var 100% og kynnt undir yfirskriftinni Allir vinna. 

Á vef Vísis er hægt að horfa á viðtalið í heild sinni.

Bitid-2-Þáttastjórnendurnir Gunnlaugur Helgason og Heimir Karlsson, ræða við Drífu Snædal, forseta ASÍ, og Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í beinni útsendingu á Stöð 2 í morgun.