Fréttasafn



5. apr. 2019 Almennar fréttir

Áhrif nýs kjarasamnings á samkeppnishæfnina

Í umfjöllun um nýgerðan kjarasamning í Morgunblaðinu í dag er meðal annars rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem hefur lýst yfir áhyggjum af því að mikill launakostnaður hafi skert samkeppnishæfni iðnaðarins. 

Sigurður segir í frétt Morgunblaðsins að áhrif kjarasamninganna á samkeppnishæfni landsins munu ráðast af nokkrum þáttum og að það megi una við samningana jafnvel þótt laun hafi hækkað meira hér en erlendis. Þ.e.a.s. ef framleiðni eykst og launaskrið fer ekki af stað, líkt og stundum gerist þegar samið sé um krónutöluhækkanir. „Það er alltaf einhver lína milli fjárfestingar í nýrri tækni annars vegar og hins vegar í launakostnaði við það að halda óbreyttu vinnulagi. Það má taka fjórðu iðnbyltinguna og sjálfvirknivæðinguna sem dæmi. Svona launabreytingar geta auðvitað flýtt fyrir sjálfvirknivæðingu sem ætti að auka samkeppnishæfni. Það er auðvitað erfitt að segja til um hvar þessi lína nákvæmlega er en hún er sannarlega til staðar. Með launahækkunum færumst við nær línunni og förum mögulega í einhverjum tilvikum yfir hana. Þá geta launahækkanir fært störf úr landi. Að það verði hagkvæmara að láta vinna vörur annars staðar en hér á landi.“ 

Einföldun á regluverki eykur samkeppnishæfnina

Hann segir jafnframt að fleiri þættir en launakostnaður geti skipt máli varðandi samkeppnishæfnina. „Síðan eru önnur atriði sem koma á móti sem snúa að því sem ríkið ætlar að gera og getur hjálpað til. Það er heilmikið rætt um einföldun á regluverki. Það tengist auðvitað mikið húsnæðis- og byggingarmarkaði en að einhverju leyti líka öðrum greinum. Öll skref í þá átt að einfalda regluverk auka samkeppnishæfni.“

Morgunblaðið, 5. apríl 2019.

Morgunbladid-5-april-2019