Áhyggjuefni að ekki verði hægt að vinna á uppsafnaðri viðhaldsskuld
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir meðal annars í Kastljósi að það fjármagn sem búið er að boða í vegakerfinu muni ekki duga. „Það er rétt að um margra ára skeið þá dugðu framlög ekki til að mæta viðhaldsþörf hvers árs fyrir sig þannig að skuldin safnaðist upp. Hún óx og óx með tímanum. Núna hefur ríkisstjórnin boðað aukin framlög þannig að það verði hægt að mæta viðhaldsskuld hvers árs fyrir sig en það þýðir ekki að það verði hægt að vinna á uppsafnaðri skuld og þetta er mikið áhyggjuefni fyrir okkur.“
Í Kastljósinu var rætt um innviðauppbyggingu og fjármögnun stórra framkvæmda í framhaldi af Innviðaþingi þar sem ráðherrar boðuðu umtalsverða fjárfestingu í innviðum á næstu árum á sama tíma og krafa er um aðhald í ríkisrekstri. Auk Sigurðar var viðmælandi Baldvins Þórs Bergssonar, þáttastjórnanda, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Birtu.
Þarf að grípa til aðgerða án tafa
Sigurður segir frá því í þættinum að Samtök iðnaðarins í félagi við Félag ráðgjafarverkfræðinga hafi nú í þriðja sinn tekið saman og gefið út innviðaskýrslu sem að varpi ljósi á uppsafnaða innviðaskuld, um stöðu á ýmsum þáttum innviða til viðbótar við framtíðarhorfur miðað við fyrirliggjandi áætlanir, í hvaða ásigkomulagi verða innviðir eftir 10 ár. „Þá kemur í ljós að innviðaskuldin er 680 milljarðar eða tæplega 700 milljarðar. Þetta eru um 15% af landsframleiðslu og í samhengi við skuldir hins opinbera er þetta hátt. Þetta er skuld sem kemur hvergi fram, hún sést hvergi í bókhaldinu en það er hins vegar þannig að við auðvitað verðum vör við hana á hverjum einasta degi. Í gegnum vegakerfið þar sem öryggi vegfarenda getur verið teflt í hættu. Við sjáum þetta með fasteignir hins opinbera, sveitarfélög og ríki, sem er lokað um lengri eða skemmri tíma vegna endurbóta og svo framvegis. Ef við horfum á einstaka þætti þá er uppsöfnuð viðhaldsskuld í þjóðvegakerfinu 200 milljarðar, sveitarfélagavegir 65-90 og fráveitur svipuð fjárhæð og í fasteignum ríkis og sveitarfélaga er um 140 milljarðar. Þetta eru gríðarlega háar tölur. Það sem er líka slæmt er að ástand vegakerfisins fær einkunnina 2 af 5 mögulegum sem þýðir að ástandið er metið mjög slæmt og það þarf að grípa til aðgerða án tafa. Þessu til viðbótar ef við horfum 10 ár fram í tímann þá sjáum við ekki annað miðað við fyrirliggjandi áform af því sem liggur fyrir að staðan verði verri að 10 árum liðnum.“
Á vef RÚV er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.
RÚV, 28. ágúst 2025.