Fréttasafn



22. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Áhyggjuefni að ný íbúðaverkefni eru ekki að fara af stað

Þáttastjórnendurnir Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason ræða við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, Í bítinu á Bylgjunni um íbúðaruppbyggingu þar sem Sigurður segir að ný byggingarverkefni séu ekki að fara af stað. „Staðan er sú að við fáum fréttir af því að markaðurinn sé mjög líflegur, það er mikil sala á fasteignum en á sama tíma og við teljum íbúðir í síðasta mánuði þá kemur í ljós að það er talsverð fækkun á íbúðum í byggingu. Það sem vekur líka athygli er að það er 40% samdráttur á milli ára í íbúðum í byggingu upp að fokheldu, á fyrstu byggingarstigunum. Það segir okkur það að það eru miklu færri verkefni að fara af stað. Þó við sjáum krana víða um bæinn sem eru að byggja íbúðir þá eru það verkefni sem fóru af stað fyrir löngu síðan. Þannig að ný verkefni eru ekki að fara af stað. Við erum að taka niður spánna okkar um fjölda fullbúinna íbúða á næsta og þar næsta ári þannig að færri íbúðir eru að koma inn á markaðinn heldur en að við héldum áður.“

Hlutdeildarlán hvetja til uppbyggingar á hagkvæmum íbúðum

Sigurður segir að vonandi muni þetta breytast með nýju hlutdeildarlánunum. „Við höfum verið mjög áhugasöm um hlutdeildarlánin vegna þess að þau hvetja til uppbyggingar á hagkvæmum íbúðum og það er akkúrat það sem markaðurinn þarf núna. Við höfum verið mjög fylgjandi því máli og höfum kannski saknað umræðu um þennan þátt málsins, að þetta stuðli að byggingu.“

Þarf ný byggingarsvæði fyrir hagkvæmar íbúðir

Þá segir Sigurður sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvað er byggt og hvar, hvað lóðirnar kosta og hvaða lóðir eru í boði og svo framvegis. „Það er alveg ljóst að við getum byggt það sem markaðurinn þarf, þessar hagkvæmu íbúðir ef réttar forsendur eru fyrir hendi. Samhliða talningunni gerðum við könnun á meðal félagsmanna. Þar eru mjög afgerandi niðurstöður varðandi þessa þætti. Skortur á lóðaframboði kemur í veg fyrir hagkvæma íbúðauppbyggingu og hagkvæmt húsnæði verður ekki byggt á þéttingarreitum. Þannig að það þarf ný svæði.“ Sigurður segir að fyrir þessa hagkvæmu uppbyggingu ef við viljum hana þá þurfi ný svæði. „Það er í raun stórar málið. Sveitarfélögin þurfa þá auðvitað að mæta því kalli. Þau eru ekki að því núna í þeim mæli sem þarf.“

Þegar Sigurður er spurður hvað við þurfum við margar íbúðir segir hann það sveiflast eftir árum en að meðaltali séu það hátt í 2.000 íbúðir sem þurfi á ári. „Við erum að telja að það komi innan við það á næstu árum. Við teljum að ef ekkert verður að gert þá stefnir í að það verði skortur á íbúðum á næstu árum. Það þýðir að verðið hækkar og leiguverð hækkar líka.“ 

Nánast öll ný verkefni á vegum óhagnaðardrifins félags

Sigurður segist heyra það á verktökum að þeir séu mjög áhugasamir um byggingu hagkvæmra íbúða en þá þurfi að vera réttu forsendurnar fyrir hendi. „Það er mjög áhugavert að sjá það líka í þessari talningu að þau verkefni í Reykjavík sem eru á byggingarstigi 2, þ.e.a.s. þar sem er bara búið að taka fyrstu skóflustungu, verkefni sem eru nýfarin af stað, eru 66 íbúðir, þar af eru 60 á vegum Bjargs sem er óhagnaðardrifið félag. Hvað segir það okkur? Almenni markaðurinn er ekki að fara af stað í ný verkefni. Þetta er auðvitað áhyggjuefni.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 22. október 2020.