Áhyggjuefni því verri viðskiptakjör eru ávísun á verri lífskjör
Þetta er grafalvarleg staða og við ásamt mörgum öðrum höfum áhyggjur af stöðunni. Þetta er þannig að við byggjum öll okkar lífskjör á því að framleiða verðmæti og selja á erlenda markaði. Þannig getum við flutt út vörur til að standa undir því sem við þurfum sem samfélag. Þannig að verri viðskiptakjör er að öllu jöfnu ávísun á verri lífskjör og þess vegna snertir þetta okkur öll. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í Vikulokunum á Rás 1 þar sem Sigurður var gestur ásamt Sigríði Á. Andersen, þingmanni Miðflokksins, og Dagbjörtu Hákonardóttur, þingmanni Samfylkingar. Ásta Hlín Magnadóttir stýrði umræðunum sem voru meðal annars um tollamál, hagsmunagæslu Íslands, dvalarleyfi, öryggi ferðamanna og fleira.
Mjög slæmt fordæmi
Sigurður segir að það komi mjög á óvart að Evrópusambandið skuli leggja á verndarráðstafanir og skuli undanskilja Ísland og Noreg frá þeim ráðstöfunum. „Þannig að það er verið að verja framleiðslu innan ESB ríkjanna en ekki Íslandi og Noregi. Þannig að við erum bara í sömu stöðu og fyrirtæki í Kazakstan, Indlandi eða Kína sem hafa verið að selja sambærilega vörur inn til Evrópu. Þannig að það er mjög alvarlegt og mér skilst að það sé í fyrsta sinn sem í raun verndarráðstafanir ESB nái ekki til Íslands þannig að út frá því er það mjög slæmt fordæmi og sérstaklega alvarlegt ef það hefur forspárgildi um framtíðina. Að við verðum þá oftar skilin eftir úti í kuldanum af hálfu Evrópusambandsins.“
Hrósar stjórnvöldum fyrir hagsmunagæsluna
Sigurður segir að við vitum að það séu miklir hagsmunir í húfi. „Ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir önnur Evrópuríki sem hafa verið að flytja inn þessar vörur og nýta. Við vonum að þau leggist á árarnar með okkur. Ég vil nota tækifærið og hrósa stjórnvöldum fyrir hagsmunagæsluna. Við höfum verið í daglegum samskiptum við utanríkisráðuneytið og starfsfólk viðskiptaskrifstofunnar. Þau hafa staðið sig virkilega vel þarna.“
Horfa þarf til annarra þátta en tolla
Í þættinum segir Sigurður að gagnvart Bandaríkjunum sé staðan öðruvísi. „Bandaríkin eru að leggja á tolla á vörur frá öllum ríkjum heims. Það hefur verið kynnt að við fengjum á okkur 10% toll sem var svo hækkað upp í 15% og tók gildi í fyrradag. Af því það er verið að leggja tolla á vörur allra landa þá þurfum við að velta fyrir okkur hlutfallslegri stöðu. Við erum á sama báti og Noregur til dæmis og ESB ríkin. En þarna snýst þetta meira um samtal.“ Hann segir að það hafi verið óskað eftir samtali við bandarísk stjórnvöld en íslensk stjórnvöld þurfi þá að hafa eitthvað fram að færa. „Ég er ekki viss um að það sé nóg að horfa til þeirra tolla sem eru lagðir á bandarískar vörur sem í sjálfu sér sem er ekki mikið. Það þarf að horfa til annarra þátta. Það þarf að horfa til fjárfestinga, er hægt að auka viðskipti ríkjanna með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi. Þar eru ýmsar hugmyndir á borðinu sem ég held að stjórnvöld þurfi að líta til, til að koma mjög vel undirbúinn til samtalsins.“
Stjórnvöld leiti til atvinnulífsins fyrir samtal við Bandaríkin
Sigurður segir að áður en að farið sé í samtal þá þurfi að greina hagsmunina. „Þess vegna höfum við miklar áhyggjur af því og höfum bent á það að gögn og upplýsingar virðast ekki vera áreiðanleg. Við höfum séð það reyndar í hvert skipti sem það kemur krísa á Íslandi þá kemur í ljós að gögn og upplýsingar, hagtölur, reynast ekki réttar. Við sáum til dæmis eftir fjármálaáfallið að það tók mörg mörg ár meðal annars með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að koma hlutum í lag. Það sama þarf að gera hér og ég veit að stjórnvöld taka það mjög alvarlega að það sé hægt að greina hagsmunina. En ég held að það færi vel á því að stjórnvöld leiti líka til utanaðkomandi aðila í þessu verkefni, til atvinnulífsins, bæði varðandi gögn og upplýsingar en ekki síður varðandi strategíuna, nálgunina, í samtalinu við Bandaríkin.“
Hér er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.
Rás 1, 9. ágúst 2025.