Fréttasafn



15. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Áhyggjur af stórvægilegu gati á íbúðamarkaði

Við erum með hillurnar tómar á íbúðamarkaði. Það vantar klárlega fleiri nýjar íbúðir inn á markaðinn. Það hefur verulega dregið úr framboði og á sama tíma er eftirspurnin veruleg. Það er þetta ójafnvægi sem við höfum áhyggjur af. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í Morgunútvarpi Rásar 2, þar sem rætt var við Ingólf og Pawel Bartoszek, formann skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, um stöðuna á íbúðamarkaðinn.

Opinberar tölur byggingafulltrúa standast ekki gæði

Ingólfur segir íbúðauppbygging snúast um fólk og þeirra þarfir. „Þarfirnar hafa nú verið metnar hvað varðar íbúðaruppbyggingu af hálfu HMS og þeir meta það sem svo að þetta eru 30 þúsund nýjar íbúðir inn á markaðinn á þessum áratug. Þetta er frekar framhlaðinn reikningur hjá þeim, þetta eru núna 3.500 íbúðir á ári næstu árin. Við erum að sjá mjög mikla fólksfjölgun í landinu eins og er, sem er merkilegt. Við fengum tölur fyrir þriðja ársfjórðung sem sýndi mjög mikla fólksfjölgun hér á landi. Þannig að hugsanlega er þörfin að fara eitthvað yfir þessar 3.500 íbúðir sem að HMS er að reikna með. Á móti erum við með okkar talningu sem er nokkuð merkileg því við þurfum að keyra um og telja íbúðir í byggingu á þessum tíma en við gerum það engu að síður því opinberar tölur, meðal annars byggingarfulltrúatölur sem Pawel er að vitna til, standast ekki gæði.“ 

Verulegur samdráttur í íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu

Ingólfur segir tölur út talningu SI sýna að það sé verulegur samdráttur í fjölda íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. 3.400 íbúðir eru í byggingu samkvæmt talningu okkar og ekki verið færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í á fimmta ár. „Þessu höfum við auðvitað áhyggjur af. Samdrátturinn mælist núna 18% frá sama tíma í fyrra. Ef við kíkjum á Reykjavík þá eru rétt um 1.900 íbúðir þar í byggingu og samdrátturinn þar á milli ára er 24% eða 600 íbúðir ríflega. Þetta höfum við áhyggjur af, klárlega. Út frá þessari talningu og kosturinn við talninguna að hún gefur okkur íbúðir eftir byggingarstigum, hún sýnir hvar í byggingarferlinu viðkomandi íbúðir eru og gefur okkur þannig tiltölulega gott tæki til að áætla fjölda íbúða fullbúnar sem eru að koma inn á markaðinn á hverjum tíma. Út frá þessari talningu er reikngað með því að það komi inn á markaðinn rétt um 2.100 íbúðir á þessu ári og á næsta ári og svo 2.300 íbúðir árið 2023. Berum þetta saman við matið um þörfina sem er um 3.500 íbúðir. Þarna erum við með gat sem er stórvægilegt. Þegar Pawel segir að það sé allt í lagi þá finnst mér það ekki vera þannig.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Rás 2, 11. nóvember 2021.