Áhyggjur af því að Landsnet varpi ábyrgð á raforkunotendur
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í samtali við Innherja að það sé óboðlegt að notendur raforku á Íslandi beri alla ábyrgð á því hvernig Landsnet hagi framkvæmd á kaupum á orku fyrir flutningstöp. Vandséð sé hvernig framkvæmdin stuðli að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi á raforku eins og kveðið sé á um í raforkulögum. Tilurð fréttar Innherja er að verð á rafmagni hækkaði um 34% milli ára í útboði Landsnets til að mæta svokölluðum grunntöpum. Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins sendu Raforkueftirliti Orkustofnunar bréf þar sem viðraðar eru áhyggjur af því að Landsnet varpi ábyrgð fyrirtækisins um skilvirkan rekstur alfarið yfir á raforkunotendur.
Þá kemur fram í fréttinni að Sigurður segi að margar leiðir séu til að nálgast kaup á raforku fyrir Landsnet, til að mynda spurning um til hve langs tíma skuli kaupa orkuna. „Af hverju gerir Landsnet ekki langtímasamninga?“ Hann bendir á að Landsnet hafi gefið út spár um orkuskort og spyr hvers vegna fyrirtækið nýti þá þekkingu ekki við kaup á raforku.
Í frétt Innherja er einnig rætt við Þorvald Jacobsen, framkvæmdastjóra kerfisstjórnunar Landsnets, Guðríði Eldey Arnardóttur, framkvæmdastjóra Samáls, og Ragnhildi Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.
Innherji, 10. júní 2024.