Fréttasafn



21. ágú. 2025 Almennar fréttir Menntun

Ákall til menntamálaráðherra um umbætur í íslenskum námsgögnum

Góð aðsókn var að málstofu og sýningu um íslensk námsgögn sem fór fram í Menntaskólanum í Hamrahlíð 13. ágúst. Menntamálaráðherra setti málstofuna og tók við ákalli frummælenda um umbætur. Á málstofunni var fjallað um stöðu námsefnis í íslensku skólakerfi, framtíðarþróun og áhrif gervigreindar og stafrænna lausna. Að viðburðinum stóðu Samtök iðnaðarins, Samtök íslenskra menntatæknifyrirtækja (IEI), Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu, Kennarasamband Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda, IÐNÚ, Hagþenkir, Þróunarsjóður námsgagna og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Á sýningunni var kynnt íslenskt námsefni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastig. 

Erindi flutt af fjölbreyttum hópi

Fundarstjóri málstofunnar var Hulda B. Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI. Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, setti málstofuna og tók við ákalli frummælenda um umbætur. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, kynnti ráðherra inn og lagði áherslu á að klára frumvarp um námsgögn og tryggja nauðsynlega fjármögnun.

Hjörtur Ágústsson, skrifstofustjóri hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, fjallaði um möguleika gervigreindar í námsefnisgerð og hvernig ábyrg notkun hennar byggi á traustum grunni. Súsanna Margrét Gestsdóttir frá Hagþenki ræddi höfundarrétt og samvinnu við gerð námsefnis. Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri IÐNÚ, kynnti þróun gagnvirkra og rafrænna námsgagna og lýsti hvernig nýjar útgáfuleiðir geti mætt fjölbreyttum þörfum nemenda og kennara.

Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður KÍ, gagnrýndi skort á uppfærðu námsefni og sagði margt efni vera frá tímum sem nemendur í dag tengdu ekki við. Hann lagði áherslu á að tæknin, þar með talið gervigreind, nýtist aðeins þegar byggt er á vönduðu og nútímalegu efni. Í ádeilu á yfirborðskennda notkun gervigreindar sagði hann: „Stóri vandi gervigreindar er að hún apar eftir mannlegri hugsun með því að skoða afurðir hugsunarinnar: blogg, blöð, greinar og bækur. Það er dálítið eins og að læra eldamennsku með því að róta í skólpi sem fellur frá þeim sem borða. Ef þú ferð í mat hjá kokki sem lærði þannig að elda, skaltu búast við því að fá stundum skít að éta.“

Páll Ásgeir Torfason frá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu kynnti stafrænt vistkerfi skóla, Frigg, og AI-verkfærin Björgin sem eru hönnuð til að styðja kennara með ábyrgum hætti og í takt við laga- og siðferðisviðmið.

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara sagði oft talað um skólana sem helsta jöfnunartæki hverrar þjóðar en ef aðgengi að námsgögnum sé misjafnt og ef sumir nemendur þurfi að punga út tugum þúsunda á hverri önn sé tómt mál að tala um jöfnuð. Einnig vakti hann athygli á því að á meðan 2% til 4% af útgjöldum til menntamála fari til námsgagnagerðar á Norðurlöndunum fari einungis 0,4% af fjármagni til menntamála í námsgögn á Íslandi. Það segi sína sögu um forgangsröðunina.

Skortur á efni og ákall til ráðherra

Íris E. Gísladóttir, formaður IEI, lauk málstofunni með skýrum skilaboðum og spurði hvort námsgögn fyrir 1.300 krónur á nemanda á ári væri ásættanlegt. Hún talaði um að það þurfi að tryggja fjármagn til námsgagnagerðar í fjárlögum. Hún benti á að um 70% kennara búi til námsefni sjálfir, sem auki verulega álag. Gögn Kennarasambandsins sýni einnig hátt starfsálag og aukið brotthvarf úr kennarastétt. Ef ekki verði gripið til aðgerða nú séu gæði kennslu í hættu og jöfnuður ekki tryggður.

Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir frá viðburðinum.

Myndir/BIG

Si_malstofa_mh-11

Si_malstofa_mh-9

Si_malstofa_mh-13Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

Si_malstofa_mh-18

Si_malstofa_mh-17Hulda B. Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI.

Si_malstofa_mh-10Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.

Si_malstofa_mh-20Hjörtur Ágústsson, skrifstofustjóri hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. 

Si_malstofa_mh-22Súsanna Margrét Gestsdóttir frá Hagþenki.

Si_malstofa_mh-23Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri IÐNÚ.

Si_malstofa_mh-24Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður KÍ.

Si_malstofa_mh-25Páll Ásgeir Torfason frá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu. 

Si_malstofa_mh-28Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.

Si_malstofa_mh-29Íris E. Gísladóttir, formaður IEI.

Si_malstofa_mh-4

Si_malstofa_mh-3

Si_malstofa_mh-2

Si_malstofa_mh-6