Fréttasafn



23. jún. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Akkilesarhæll er uppbygging sölu- og markaðsstarfs

Í Morgunblaðinu er greint frá viðtali við Þórð Magnússon, stjórnarformann fjárfestingarfyrirtækisins Eyris Invest, í nýju tímariti Samtaka iðnaðarins um nýsköpun en þar segir Þórður að Akkilesarhæll íslenskrar nýsköpunar sé uppbygging sölu- og markaðsstarfs. Hann segist líta á það sem hlutverk Eyris að leiðbeina frumkvöðlum sem félagið fjárfesti í, og hjálpa til við að setja saman farsæl stjórnendateymi og aðstoða við að byggja upp sölu- og markaðsstarf. „Sá hluti er að mínu mati Akkilesarhæll íslenskrar nýsköpunar,“ segir Þórður í tímaritinu. „Við leggjum gríðarlega áherslu á sölu- og markaðsstarf, því þú getur haft frábæra vöru í höndunum en ef enginn veit af henni eða aðgangur að mörkuðum er ekki til staðar, þá hefur það ósköp lítið að segja,“ segir Þórður í tímaritinu og bætir við að sala og markaðsstarf, aðlögun vörunnar að þörfum markaðarins og markaðsskilaboðin séu oft 60–70% af vegferðinni. 

Í samtalinu segir Þórður að það sé hans reynsla að frumkvöðullinn sjálfur sé ekki alltaf endilega best til þess fallinn að leiða fyrirtækið áfram í vexti, þó hann gegni mikilvægu hlutverki. Oft þurfi að ná fram breytingum í rekstrinum sem betra sé að einhver annar leiði. Í greininni í tímaritinu er farið lauslega yfir fjölbreytt eignasafn Eyris. Þar er meðal annars að finna líftæknifyrirtækið Saga Natura sem framleiðir fæðubótarefni úr hvönn og þörungum, eTactica sem selur mælitæki sem gerir fyrirtækjum kleift að skilja og bæta orkunotkun sína, Sæbýli ehf., sem ræktar japönsk sæeyru á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn aðallega til útflutnings til Asíu og Cooori sem tvinnar saman tækni og nýjustu þekkingu í kennslufræðum.

Morgunblaðið, 19. júní 2020.

Morgunbladid-19-06-2020