Ákvörðun ESB kallar á stóraukna hagsmunagæslu fyrir Ísland
Þessi ákvörðun Evrópusambandsins kallar á stóraukna hagsmunagæslu fyrir Ísland. Ég vil nota tækifærið og hrósa íslenskum stjórnvöldum fyrir mjög öfluga hagsmunagæslu sem að hefur, að minnsta kosti skilað þeim árangri að sjónarmið Íslands hlutu meiri hljómgrunn en ella, sem birtist meðal annars í því að það þurfti að fresta atkvæðagreiðslunni oftar en einu sinni. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í Speglinum á Rás 1 um verndaraðgerðir ESB vegna kísiljárns sem útilokar Ísland og Noreg frá innri markaðnum. Hann segir að það hafi ekki verið full samstaða meðal aðildarríkjanna í Evrópusambandinu um þessa útfærslu, þó að þetta yrði að lokum niðurstaðan. „En hún náði að minnsta kosti að hreyfa við hlutunum. Og, það er alveg ljóst, eins og ég nefndi áðan, það þarf stóraukna hagsmunagæslu núna gagnvart, gagnvart Evrópusambandinu, til þess að taka mið af hagsmunum Íslands. Það er að gera það í raun í miklu meira mæli. Hagsmunagæslunni er þó hvergi nærri lokið.“
Ótti um frekari álögur Evrópusambandsins
Sigurður segir að hafi verið mjög gott að sjá viðbrögð ráðamanna núna eftir að þessi ákvörðun var kynnt. Hann sagði að í vikunni væru mikilvægir fundir í Brussel á vettvangi EFTA, þar sem að meðal annars starfsmaður Samtaka iðnaðarins, Sigríður Mogensen, eigi sæti og taki þátt. „Við erum með þingmenn líka frá Íslandi, utanríkisráðherra mætir þangað á morgun, ef ég skil þetta rétt. Og þar skiptir mjög miklu máli að, sem sagt annars vegar að halda á lofti mótmælum en hins vegar líka að krefjast svara. Evrópusambandið þarf svolítið að svara því núna, hvernig þau sjá fyrir á því að þessu verði aftur beitt gegn hagsmunum Íslands og þá, eftir atvikum, annarra ríkja í EFTA/EES.“ Þá kemur fram í viðtalinu við Sigurð að ákvörðunin veki líka ótta við frekari álögur Evrópusambandsins á aðrar íslenskar vörur og greinar.
Endurspeglar breytt viðskiptaumhverfi
Sigurður segir að staðan í heiminum hafi breyst mikið á skömmum tíma í alþjóðaviðskiptum og í takti alþjóðavæðingarinnar. „Í bara mjög mörg ár, að þá var svona, við getum orðað það, það ríkti nokkurs konar friður í viðskiptum á alþjóðavettvangi. En núna hafa ríki ráðist í aðgerðir til þess að að vernda framleiðslu, til þess að stemma stigu við óeðlilegum viðskiptaháttum, lagt á tolla eða aðrar ráðstafanir í því skyni, líka til þess að tryggja öryggi, viðnámsþrótt og fleira. Þannig að í því andrúmslofti, í þessari stöðu, að þá kannski reynir fyrst á hagsmunagæslu. sem sagt um langt skeið þá þurftum við kannski blessunarlega ekki að hafa áhyggjur af þessu. Álögur Evrópusambandsins og tollar sem bandarísk stjórnvöld hafa lagt á síðustu misserin endurspegla þetta breytta viðskiptaumhverfi.“
EES-samningurinn mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands
Í lok viðtalsins segir Sigurður að við megum samt ekki gleyma því að EES-samningurinn
sé mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands. „Að öllu öðru leyti náttúrulega virkar hann eins og til var ætlast.“
Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.
Spegillinn á Rás 1, 18. nóvember 2025.

