Fréttasafn1. júl. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Ákvörðun um áfrýjun vegna innviðagjalda liggur fyrir fljótlega

Í ViðskiptaMogganum er greint frá því að ákvörðun um það hvort áfrýjað verði sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur af kröfu verktakafyrirtækisins Sérverks ehf. um endurgreiðslu rúmlega 120 m.kr. innviðagjalds, sem fyrirtækið hafði greitt vegna lóðar í Kuggavogi 5 í Vogahverfi í Reykjavík, mun liggja fyrir fljótlega en Samtök iðnaðarins fara með málið ásamt verktakafyrirtækinu. 

Eftirfarandi er haft eftir Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins: „Við eigum erfitt með að skilja þessa niðurstöðu héraðsdóms enda hefur innviðagjaldið verið innheimt af Reykjavíkurborg sem endurgjald fyrir þjónustu á sviði skipulagsmála sem við teljum vera hluta af lögbundnum verkefnum borgarinnar og ætti að fjármagna með öðrum gjöldum. Nú er verið að rýna dóminn og skoða hver næstu skref verða hvað varðar önnur dómsstig og ætti ákvörðun að liggja fyrir fljótlega.“

Morgunblaðið, 1. júlí 2020.