Fréttasafn



3. jún. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Ál gegnir lykilhlutverki í Falcon 9 eldflaug SpaceX

Allt frá upphafi geimferða hefur ál gegnt lykilhlutverki m.a. vegna léttleika síns og þols, sem nýtist vel í geimskotum og lendingum. Ál er kjarnaefni í Falcon 9 eldflaug SpaceX, en þær eru hannaðar þannig að þær lenda aftur eftir geimskotið og eru áfram brúklegar til að koma geimferjum á loft. Þetta segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í grein sinni í ViðskiptaMogganum í dag en fyrir fáeinum dögum þyrptist fólk á Canaveral-höfða í Flórída til að fylgjast með fyrsta mannaða geimskotinu í níu ár.

Pétur segir að ál sé útbreiddara en margur heldur. „Í skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir Samál kemur fram að tæp 90% Íslendinga segjast nota ál í daglegu lífi. Á meðal þess sem fólk nefndi voru símar, tölvur og raftæki, bílar og reiðhjól, umbúðir, álpappír og álbakkar, drykkjardósir, pottar og pönnur og ýmis eldhúsáhöld. Þar voru ekki nefndar flugvélar og enginn geimfari hefur lent í úrtakinu, því geimferjur bar ekki á góma. Almennt er erfitt að svara skoðanakönnun án þess að ál komi við sögu í símum eða tölvum. Það er raunar burðurinn í framleiðslu Apple. Og maður þyrfti virkilega að vanda sig ætlaði maður að sneiða algjörlega hjá áli í lífi sínu – jafnvel einn dag.“ 

Þá kemur fram í grein Péturs að af áli sem notað sé til framleiðslu í Evrópu fari mest í bifreiðar og hverslags samgöngutæki. Hlutfall áls í bifreiðum hækki stöðugt, því með léttingu bílaflotans komi bílaframleiðendur til móts við kröfur stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ál sé mikið notað í mannvirki og byggingar, en álklæðningar á byggingum geti dregið úr orkunotkun um 50%. Svo séu það umbúðir og óendanlega fjölbreytt flóra af vörum af öllu tagi.

Einnig segir Pétur í greininni að ál megi endurvinna aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum og fyrir vikið sé það eftirsótt til endurvinnslu. Endurvinnslan skapi verðmæti og dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, en til endurvinnslu áls þurfi einungis um 5% af orkunni sem fari í að framleiða það upphaflega. Þegar Falcon 9 eldflaugin verði orðin úrelt megi einfaldlega endurvinna álið úr henni í nýja eldflaug eða geimferju. Og stefna svo fólki á Canaveral-höfða.

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni.