Fréttasafn



14. ágú. 2020 Almennar fréttir Menntun

Aldrei fleiri nýnemar hafið nám í HR

Í haust hefja um 1.700 nýnemar nám við Háskólann í Reykjavík, í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi. Í tilkynningu frá skólanum kemur fram að nemendum í HR hafi farið fjölgandi ár frá ári en aldrei hafi fleiri nýnemar hafið nám í háskólanum og séu þeir tæplega 20% fleiri en í fyrra. Einnig munu um 100 skiptinemar stunda nám við háskólann á haustönn. 

Haft er eftir Ara Kristni Jónssyni, rektor HR, að það sé ávallt tilhlökkunarefni fyrir kennara og allt starfsfólk háskólans að hefja nýtt skólaár. „Háskóli er samfélag og samskipti meðal nemenda og við kennara eru mikilvægur þáttur í góðri menntun. Við höfum því unnið hörðum höndum að því að nemendur geti sem allra mest stundað nám sitt í háskólanum og nýtt aðstöðuna þar, innan þeirra marka sem sóttvarnarreglur setja okkur á hverjum tíma. Í haust verða hefðbundnar stundaskrár kjarni skipulags kennslunnar, en fyrirlestrar verða sendir út í streymi eða teknir upp og gerðir aðgengilegir á netinu, til að tryggja aðgengi allra að kennslu, óháð takmörkunum. Lögð verður sérstök áhersla á að nemendur geti mætt í háskólann í verklega tíma, dæmatíma, umræðutíma og aðra tíma sem byggja á viðveru og samstarfi. Það er fagnaðarefni að unnt sé að hefja skólaárið með eins metra fjarlægðartakmörkunum í stað tveggja, eins og við höfðum gert ráð fyrir. Það gerir okkur kleift að sinna fleiri nemendum á staðnum á sama tíma og allt háskólastarfið verður fyrir vikið eðlilegra.“