Fréttasafn10. feb. 2015 Iðnaður og hugverk

Aldrei fleiri þátttakendur á fagráðstefnu UT Messu

 

UT Messan fór fram í Hörpu um helgina og sóttu um 9000 manns viðburðinn að þessu sinni. Þar af sóttu um þúsund manns fagráðstefnu UT Messunnar á föstudag og hafa aldrei verið fleiri þátttakendur. Boðið var upp á 45 fyrirlestra á 10 mismunandi þemalínum, þar sem bæði innlendir og erlendir sérfræðingar héldu tölur.

 

Opinn dagur var fyrir almenning á laugardegi og sóttu hann að þessu sinni um átta þúsund manns. Markmið UT Messu er að kynna það umfangsmikla starf sem fer fram í upplýsingatæknigeiranum á Íslandi en á sjötta tug fyrirtækja voru með kynningarbása á opna deginum og gafst gestum og gangandi meðal annars tækifæri á að prufa þrívíddarprentara, kynnast því hvernig gervigreind virkar og spreyta sig í Lego þrautabraut. Þá kepptu háskólanemar í hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands og var það sveitin „INIT2FINISH“ sem hreppti hnossið með vélmenni sem sveitin kaus að kalla „Krabbann“.

Hjálmar Gíslason var verðlaunaður á hátíðinni fyrir framlag sitt til upplýsingatækni á Íslandi þegar hann hlaut UT verðlaun Ský 2015. Hjálmar er stofnandi DataMarket sem nýverið var selt til fyrirtækisins Qlik á 1.440 milljónir króna og starfar Hjálmar hjá Qlik í dag. Í rökstuðningi fyrir valinu segir um Hjálmar: „Hann er framsýnn og hefur sterka tilfinningu og framtíðarsýn fyrir tækni og þróun. Með sölu á Datamarket til Qlik sýndi Hjálmar að hann er ekki aðeins frábær frumkvöðull sem fundið hefur hugmyndum sínum farveg, heldur er hann einn af allt of fáum sem hafa kunnáttu, þrautseigju og getu til að fylgja hugmynd eftir alla leið til enda með góðri sölu til stærra og öflugra fyrirtækis og þannig tryggt enn betur framgang hennar.“