Fréttasafn



9. maí 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Álfyrirtæki í forystu við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Bryndísi Skúladóttur, sviðsstjóra framleiðslusviðs Samtaka iðnaðarins, en hún verður með erindi á ársfundi Samáls næstkomandi fimmtudag. Í viðtalinu kemur meðal annars fram að íslensku álfyrirtækin hafa samtals greitt ríflega 900 milljónir króna á síðustu fjórum árum fyrir losunarheimildir á gróðurhúsalofttegundum. Þar segir að í samræmi við evrópska viðskiptakerfið með mengunarkvóta (ETS) fái álfyrirtækin úthlutaðan losunarkvóta árlega en kerfið var innleitt hér á landi árið 2013 og álfyrirtæki, orkufyrirtæki og flugfélög í EES og ESB eru aðilar að. Sá kvóti er með innbyggða hagræna hvata sem lýsa sér þannig að ávallt er úthlutað minna magni en fyrirtækin hafa þörf fyrir, og magnið minnkar ár frá ári. Til að „eiga fyrir“ útblæstri gróðurhúsalofttegunda hvers árs þurfa fyrirtækin því að kaupa viðbótarlosunarheimildir til að uppfylla þörf hvers árs. 

Bryndís segir að álfyrirtækin hér á landi hafi verið í forystu á heimsvísu frá árinu 1990 í því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, og það sé fyrst núna að fyrirtæki í öðrum löndum séu að ná sama árangri. En á ársfundi Samáls mun Bryndís ræða um þróun á losun gróðurhúsalofttegunda hjá íslensku álfyrirtækjunum, og mun einnig koma inn á úrgangsmál fyrirtækjanna.

Morgunblaðið, 9. maí 2017.