Fréttasafn30. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Áliðnaður burðarafl stórra fjárfestinga og nýsköpunar

Stundum vill framleiðsluiðnaður gleymast þegar horft er til vaxtarsprota í samfélaginu. Álver fjárfesta fyrir að jafnaði um fjóra til fimm milljarða á ári, enda þarf stöðuga nýsköpun og þróun til að efla samkeppnisstöðu þar sem verð ræðst á heimsmarkaði. Síðustu áratugi hefur áliðnaður einmitt verið burðarafl stórra fjárfestinga og byltingarkenndrar nýsköpunar, ekki aðeins í eigin rekstri heldur einnig hjá hundruðum fyrirtækja sem byggja rekstrargrundvöll sinn á viðskiptum við álverin. Þetta segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í grein sinni í Markaðnum. Hann segir síðastliðið ár hafa verið viðburðaríkt og krefjandi ár í áliðnaði. Sem betur fer hafi gengið vel að tryggja öryggi starfsfólks á þessum fjölmennu vinnustöðum á tímum heimsfaraldurs og um leið hafi framleiðslan gengið snurðulaust fyrir sig því mikið sé í húfi. „Áliðnaður er ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs og aldrei sést það betur en þegar gefur á bátinn, - sagan sýnir jú að öflugum iðnríkjum gengur betur en öðrum að standa storminn af sér.“

Pétur segir að nú þegar þjóðarbúið hafi orðið fyrir þungu höggi verði stærsta verkefnið að sporna við atvinnuleysi og koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað og til að standa undir störfum þurfi verðmætasköpun og forsenda þess að fyrirtæki skapi verðmæti sé samkeppnishæfni. „Mikið hefur verið rætt um rekstrarskilyrði áliðnaðar með hliðsjón af orkuverði og skyldi engan að undra, þar sem mjög hefur þrengt að rekstrinum og á það raunar einnig við um kísilframleiðslu og gagnaversiðnað. Vart þarf að orðlengja, að til þess að orkusækinn iðnaður blómgist til langrar framtíðar hér á landi, þarf að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Áfangi á þeirri vegferð er endurskoðun flutningskostnaðar sem ýtt hefur verið úr vör af iðnaðarráðherra.“

Hann segir að á sama tíma og sé til skoðunar að loka álveri hér á landi sé Norsk Hydro að endurræsa annan kerskála álvers í Husnes í Noregi sem lokað hafi verið í rúman áratug og segir ákvörðunina byggjast á endurgreiðslum norskra stjórnvalda á ETS-hluta raforkuverðsins. Útlit sé fyrir að þær hækki verulega næsta áratug og ef ekkert sé að gert muni það grafa enn frekar undan samkeppnisstöðu áliðnaðar hér á landi.

Þá kemur fram í grein Péturs að vaxandi eftirspurn sé eftir áli á heimsvísu, enda hafi það marga kosti sem nýtist í baráttunni í loftslagsmálum. Það sé léttur en sterkur málmur og dragi því úr orkunotkun bifreiða, það einangri vel og lengir þannig endingartíma matvæla og bæti orkunýtingu bygginga, það tærist ekki og megi endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum gæðum. Svo sé það vel mótanlegt, hvort sem það sé álpappír, símar eða geimflaugar. Það sé jú umbreytingin sem skapi verðmæti. 

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni.

Markaðurinn, 30. desember 2020.