Fréttasafn



14. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk

Áliðnaður sterk stoð í íslensku efnahagslífi

Á þeim 50 árum sem liðin eru frá því að álframleiðsla hófst hér á landi hefur landsframleiðsla á mann farið úr því að vera 2,4 m.kr. í 7,9 m.kr á verðlagi ársins 2018, og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 275%. Fjölbreytni útflutnings hefur jafnframt aukist en útflutningur iðnaðarvara hefur á þessum tíma farið úr 11 mö.kr. í 321 ma.kr. Vegur þar þyngst aukningin í útflutningi álsins en í fyrra voru flutt út 882 þúsund tonn af áli fyrir um 230 ma.kr. Þetta kemur meðal annars fram í nýrri greiningu SI um áhrif álframleiðslu á efnahagslífið á Íslandi á síðustu 50 árum með yfirskriftinni Álið sterk stoð í 50 ár.

Landsframleidsla-a-mann

Framlag áliðnaðar 1.150 milljarðar króna á 50 árum

Á síðustu 50 árum hefur álframleiðsla skilað um 870 m.ö.kr. í hlut launþega álfyrirtækja og fyrirtækjaeigenda á núvirði samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Við það bætist sá virðisauki sem áliðnaðurinn skapar með viðskiptum sínum við aðra atvinnuvegi m.a. við orkuframleiðendur, tæknilega ráðgjafa, þjónustufyrirtæki ofl. Gróflega má áætla að óbeint framlag álframleiðslunnar hafi verið um 880 ma.kr. á þessu tímabili. Er þá stuðst við mat Hagfræðistofnunar á óbeinum áhrifum greinarinnar. Heildarframlag áliðnaðar til landsframleiðslunnar á þessu 50 ára tímabili er því ríflega 1.750 ma.kr. sem er um 62% af landsframleiðslu síðastliðins árs. 

Framlag-alidnadar-til-VLF

Í greiningu SI segir að rekstrarafgangur af álframleiðslu falli ekki í hlut Íslendinga og ef sá þáttur sé dreginn frá megi áætla að beint og óbeint framlag álframleiðslu til íslenska hagkerfisins hafi numið um 1.150 mö.kr. yfir 50 ára tímabilið sem sé um 41% af landsframleiðslu síðastliðins árs. Meirihluti þessa framlags til efnahagslegrar velmegunar í landinu hafi fallið til á síðustu tíu árum enda hafi framleiðslugeta álsins verið sögulega mikil á þeim tíma. 

Umsvif áliðnaðar aukist mikið á síðustu 20 árum

Þá segir í greiningunni að athygli veki að ofangreint framlag greinarinnar til innlendrar verðmætasköpunar og velmegunar falli til á síðustu 20 árum eða svo þar sem mikil aukning hafi verið á umsvifum og framleiðslugetu áliðnaðarins á þeim tíma vegna stækkunar ÍSALS, tilkomu og stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga og síðan tilkomu álvers Fjarðaáls í Reyðarfirði. Jafnframt kemur fram í greiningunni að árið 2017 hafi 1.683 starfað í íslenskum áliðnaði og gera megi ráð fyrir að nálega 2.400 önnur störf tengist starfsemi álvera. Þar segir að um 4.100 manns hafi því haft framfæri sitt af álframleiðslu á því ári, beint og óbeint og að um sé að ræða störf þar sem meðallaun séu þó nokkuð hærri en í hagkerfinu almennt.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI í heild sinni.