Álitsgerð sem segir innviðagjaldið ólögmætt
Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að Samtök iðnaðarins hafi fengið álit lögmanna þar sem færð eru rök fyrir því að gjaldtaka Reykjavíkurborgar í formi innviðagjalds sé ólögmæt. En að undanförnu hefur verið umfjöllun í fjölmiðlum um innviðagjöld.
Í fréttinni segir að í álitinu sé horft til þess að innviðagjald sé hvorki skattur né þjónustugjald í skilningi laga. Gjaldið sé innheimt sem endurgjald fyrir þjónustu á sviði skipulagsmála, en þau teljist til lögbundinna verkefna Reykjavíkurborgar, samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Einnig segir að þá liggi fyrir að gjaldinu sé ráðstafað að stórum hluta til verkefna sem teljast til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins, t.d. fjármögnunar skólabygginga, og verkefna sem þegar eru fjármögnuð með gatnagerðargjaldi til að kosta gerð nýrra gatna o.fl. Í þessum skilningi sé gjaldið nýtt sem almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standa nú þegar til boða á grundvelli laga. Er því komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að standa í slíkri tekjuöflun á einkaréttarlegum grunni. Þá segir að fram hafi komið í Morgunblaðinu að leggja eigi aukagjald á íbúðir við fyrirhugaða borgarlínu til að fjármagna hana og að það gjald bætist við innviðagjaldið.