Allir helstu geirar iðnaðarins í vexti frá síðasta ári
„Allir helstu geirar iðnaðarins eru í vexti og hafa verið í vexti frá síðasta ári,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í forsíðufrétt ViðskiptaMogganns. Hann bendir á að umfang greinarinnar sé nú meira en fyrir kórónuveirufaraldurinn. „Við sjáum umtalsverðan vöxt í veltu greinarinnar og talsverða fjölgun starfsfólks.“
Vöxturinn hefur mikil áhrif á vinnumarkaðinn
Í fréttinni kemur fram að veltuaukning sé í janúar til febrúar frá fyrra ári og velta áliðnaðar hafi aukist um 60% á sama tímabili. Ingólfur segir í ViðskiptaMogganum að vöxturinn í iðngreinum muni hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn. „Þróun greinarinnar skiptir miklu fyrir þróun hagkerfisins en einn af hverju fimm starfandi hér á landi er í iðnaði og er vægi greinarinnar í landsframleiðslunni um 21%. Þá er hlutur greinarinnar í gjaldeyrisöflun hagkerfisins stór eða ríflega 40%. Iðnaðurinn og hagkerfið í heild er að taka við sér eftir kórónuveirufaraldurinn. Hefur það áhrif á tölurnar. Líklegt er að úr vextinum dragi þegar þau áhrif eru horfin. Hins vegar bendir flest til þess að iðnaðurinn og hagkerfið haldi áfram að vaxa þótt hægja muni á vextinum þegar líður á árið.“
Ýmsar áskoranir gætu hægt á vexti iðnaðarins
Þá kemur fram í frétt ViðskiptaMoggans að hrávara hafi hækkað mikið í verði undanfarið og tafir orðið á aðfangakeðjunni. „Horfur á helstu útflutningsmörkuðum hafa versnað undanfarið vegna stríðsins í Úkraínu. Verðhækkun hrávara, tafir og hægari vöxtur útflutningsmarkaða er áskorun fyrir iðnaðinn og gæti hægt á vexti hans á næstunni. Skortur á sérhæfðu starfsfólki og hár innlendur launakostnaður í samanburði við helstu samkeppnislönd er vaxandi vandamál. Eftir því sem atvinnuleysið minnkar frekar verður erfiðara fyrir fyrirtæki að manna hagvöxtinn. Við þurfum þá að leita út fyrir landsteinana að vinnuafli og það gæti líka orðið takmarkandi þáttur.“ Í fréttinni segir en að þessir þættir kunni að halda aftur af vexti hagkerfisins.
ViðskiptaMogginn, 1. júní 2022.