Allir nema Píratar reiðubúnir að lækka tryggingagjaldið
Fulltrúar allra flokka nema Pírata eru reiðubúnir að lækka tryggingagjaldið. Þetta kom fram á fundi Samtaka iðnaðarins í Kaldalóni í Hörpu með forystufólki stjórnmálaflokkanna í síðustu viku. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, spurði frambjóðendur hvort tryggingagjaldið yrði lækkað á fyrsta starfsári stjórnar ef þeirra flokkur kæmist til valda og óskaði eftir að fá einfalt svar, já eða nei við spurningunni.
Ólafur Ísleifsson, Flokkur fólksins: „Við mundum mjög gjarnan vilja vinna að því, já.“
Björt Ólafsdóttir, Björt framtíð: „Já, það hefur verið yfirlýst stefna okkar eins og fjölda annarra að lækka tryggingagjaldið og tek undir það sem Katrín sagði að mér finnst að tryggingagjaldið eigi að fara að meirihluta í fæðingarorlofssjóð. Það var á dagskrá hjá okkur í þessari ríkisstjórn að lækka það en okkur entist ekki alveg árið til þess en það var sannarlega verið að vinna að því.“
Bergþór Ólason, Miðflokkurinn: „Já, Miðflokkurinn ætlar sér að lækka tryggingagjaldið.“
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Samfylking: „Já, eins og ég sagði áðan þá er það stefna Samfylkingarinnar.“
Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn: „Já, en það þyrfti sennilega að gera þetta í tveimur til þremur skrefum.“
Helgi Hrafn Gunnarsson, Píratar: „Við höfum ekki gert ráð fyrir breytingu á þessu enn sem komið er, það eru ekki breytingar hugaðar á því hjá okkur.“
Katrín Jakobsdóttir, VG: „Ég tel forsendur til þess en ég tel líka að þetta þurfi að gerast í áföngum en það er hægt að byrja á þeim áfanga á næsta starfsári.“
Sigríður Á Andersen, Sjálfstæðiflokkur: „Það er mjög brýnt að lækka tryggingagjaldið frekar og við munum svo sannarlega beita okkur fyrir því á fyrsta starfsári ríkisstjórnar.“
Lilja Alfreðsdóttir, Framsóknarflokkur: „Framsóknarflokkurinn hefur sett það á dagskrá að við viljum lækka tryggingagjaldið og sérstaklega til að gera lítil og meðalstór fyrirtæki samkeppnishæfari.“
Hér er hægt að horfa á myndband sem sýnt var áður en umræðurnar hófust um starfsumhverfi:myndband
Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum í heild sinni: