Fréttasafn



23. sep. 2016 Mannvirki

Allir nemar í rafiðngreinum fá gefins spjaldtölvur

Allir nemar í rafiðngreinum á landinu, samtals um 800 manns, fá gefins spjaldtölvur í haust frá Samtökum rafverktaka, SART, og Rafiðnaðarsambandi Íslands, RSÍ, fyrir hönd allra atvinnurekenda og launþega í rafiðnaði. Tilgangur gjafarinnar er að tryggja að nemarnir geti nýtt sér það mikla úrval af kennsluefni sem er þegar í boði á rafrænu formi og stuðla að betri námsárangri og fjölgun nemenda í þessum greinum en mikil vöntun er á rafiðnaðarmönnum á Íslandi.

„Það er von okkar að með þessum stuðningi sækist nemum í rafiðngreinum námið betur, námsárangur verði betri og nemendum fjölgi en talið er að það vanti um tvö hundruð nýja starfsmenn með rafiðnaðarmenntun á vinnumarkaðinn á ári hverju til að viðhalda þörf markaðarins,“ segir Rúnar Bachmann, formaður stjórnar Menntasjóðs rafiðnaðarins.

Gefa 800 spjaldtölvur núna

Alls eru þetta 800 spjaldtölvur sem gefnar eru í haust og voru þær fyrstu, um hundrað talsins, afhentar nemendum í Tækniskólanum í Reykjavík í dag. Næstu daga munu svo fulltrúar SART og RSÍ heimsækja alla verkmennta- og fjölbrautaskóla landsins sem kenna rafiðnir og afhenda nemendum í rafiðngreinum spjaldtölvurnar. Nemarnir geta þá skráð sig á námsgagnavefinn www.rafbok.is og fengið aðgang að því mikla úrvali af kennsluefni sem er í boði fyrir grunndeildir rafiðna og þurfa þeir þá ekki að kaupa þær námsbækur. 

Alda Særós Bóasóttir tók á móti fyrstu spjaldtölvunni úr hendi Jens Péturs Jóhannssonar formanns Samtaka rafverktaka (SART) og Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ).

Að ári ætla SART og RSÍ að halda áfram á sömu braut og fá þá allir sem hefja nám í rafiðngreinum afhenta spjaldtölvu að gjöf.

Rafræn námsgögn fjármögnuð af Menntasjóði rafiðnaðarins

Samtök atvinnurekenda og launþega í rafiðnaði hafa lengi haft náið samstarf um menntun rafiðnaðarmanna, bæði grunnmenntun og endur- og símenntun. Sú starfsemi er fjármögnuð af Menntasjóði rafiðnaðarins sem hefur tekjur af kjarasamningabundnu menntagjaldi en helstu framkvæmdaaðilar eru Rafiðnaðarskólinn og Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins.

Rafbok2

Fyrir nokkrum árum hóf Menntasjóður rafiðnaðarins að fjármagna gerð námsgagna á rafrænu formi fyrir nemendur grunndeilda rafiðna, þeim að kostnaðarlausu, og er nú til mikið af kennsluefni á rafrænu formi á vefnum www.rafbok.is. Nýlega ákváðu samtökin að gera enn betur og gefa öllum nemum spjaldtölvu sem eru í grunndeildum rafiðna, í iðnnámi í dagdeildum eða kvöldskóla, sem og dreifinámsnemum, til að tryggja að allir hafi aðgang að því mikla úrval af kennsluefni sem er í boði.