Fréttasafn



1. apr. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

„Allir vinna“ fer í 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts

Breytingar hafa verið gerðar á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sem fela í sér hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% upp í 100% í anda „Allir vinna“ átaksins sem fór af stað árið 2009. Þessi breyting er einn liður af mörgum í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19.

Breytingarnar fela í sér að hægt er að fá endurgreiðslu vegna vinnu á verkstað, hönnunar og eftirlits. Hækkunin er tímabundin frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 og felur í sér:

  • Endurgreiða skal byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað.
  • Endurgreiða skal byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis.
  • Endurgreiða skal eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhald þess.
  • Endurgreiða skal eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.
  • Endurgreiða skal eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
  • Endurgreiða skal mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeildum og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna 100% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Á sama hátt skal endurgreiða þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki.
  • Endurgreiða skal einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts.
Hér er hægt að fá nánari upplýsingar á vef Skattsins. 

Hér er hægt að nálgast lögin á vef Alþingis, um er að ræða 7. gr.