Fréttasafn



15. ágú. 2025 Almennar fréttir Menntun

Allt að 1.000 nemendum vísað frá iðnnámi

Það er mikill skortur á fagmenntuðu starfsfólki, bæði iðnmenntuðum og sérfræðingum. Nýjustu mælingar sýna að 64% stjórnenda iðnfyrirtækja skortir iðnmenntað starfsfólk og 13% stjórnendanna segja að skortur á starfsfólki hafi haft bein áhrif á vöxt fyrirtækja þeirra segir Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, meðal annars í sérblaði Morgunblaðsins um skóla.  „Staðan er sú að skólarnir sem kenna iðngreinar eru nánast yfirfullir og árlega er allt að 1.000 nemendum vísað frá iðnnámi þrátt fyrir mikla eftirspurn og skort á starfsfólki í byggingariðnaði með rétta hæfni. Við erum með framúrskarandi iðnmenntunarkerfi á Íslandi þar sem skólarnir og atvinnulífið vinna náið saman, meðal annars með rafrænum ferilbókum þar sem skráð er hvaða hæfni nemandi þarf að ná til að standast íslenskar reglugerðir og gæðakröfur í byggingariðnaði.“ 

Þarf að fjölga nemaplássum og tryggja fjárfestingu í menntakerfinu

Í viðtalinu kemur fram að ólíkt mörgum löndum þar sem störfum er skipt upp í tugi sérhæfðra eininga, eins og röraleggjarar eða gluggaísetningarfólk, sem við erum ekki með, læra íslenskir iðnnemar að byggja hús frá grunni. „Námið er því bæði lengra og meira krefjandi en víða annars staðar enda er lögð áhersla á fagleg vinnubrögð og gæði. En til þess að halda uppi þessu háa gæðastigi þarf að fjölga nemaplássum og tryggja fjárfestingu í menntakerfinu. Annars náum við ekki að bregðast við eftirspurninni á vinnumarkaði. Það er mikill áhugi og aðsókn í iðnnám en skólakerfið ræður ekki við eftirspurnina. Það er óviðunandi að vísa þurfi frá allt að 1.000 áhugasömum nemendum vegna skorts á rými og úrræðum. Á sama tíma vantar mikið upp á að við náum meðaltali OECD í fjölda nemenda í starfsnámi og í útskriftum á tilsettum tíma. Þetta er bæði efnahagsleg og samfélagsleg sóun.“ Hulda bætir við að fjöldi nemaplássa í iðnnámi hafi ekki þróast í takt við aukna eftirspurn og fólksfjölgun á Íslandi á síðustu 20 árum. „Þrátt fyrir verulega fjölgun íbúa, fjölgun verkefna og stóraukna þörf fyrir iðnmenntað starfsfólk hafa iðnskólarnir ekki fengið úrræði eða fjárfestingu til að mæta þeirri þróun.“ 

Morgunblaðið / sérblað um skóla, 15. ágúst 2025.

Morgunbladid_skolar-15-08-2025