Fréttasafn22. feb. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Allt of flókið skipulagsferli

Það eru hörmuleg dæmi um hvernig mál hafa þvælst, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í umræðum á fundi Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga þar sem ný skýrsla um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi var kynnt. Ráðherra tekur undir orð Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, um að skipulagsferlið væri allt of flókið og að tími væri kominn til að skoða ferlið frá grunni. „Við höfum verið með verkefni sem hafa verið í pólitískri umræðu. Ekki í umræðu um að finna lausnina heldur einhverjum ferlum í að viðhalda vandamálinu. Við þurfum að fara yfir þessa ferla og tryggja að þeir gangi eðlilegar fyrir sig. Ríkisstjórnin setti sér markmið um að þessi kæruferli sem eru á öllum stigum að það sé eðlilegra að þau komi fram í upphafi og að í þessu almennings samráði geti aðilar fengið allar athugsemdirnar þá og unnið úr því þannig að þegar menn eru búnir að fara í gegnum allt þetta ferli og komnir að framkvæmdaleyfinu að þá stoppi ekki allt. Það er svo dýrt,“ segir Sigurður Ingi á fundinum.

Ekki allir um borð í sömu vegferðinni

Í umræðunum nefnir ráðherra dæmi um tafir. „Sundabrautin er gott dæmi. Hún er búin að vera lengi til inn á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Hún er búin að vera lengi á dagskrá. Nýleg framkvæmd á Kjalarnesi er annað dæmi þar sem var breikkun vegar í 2+1 í sama vegstæði. Allt í einu breyttist túlkun Skipulagsstofnunnar að þessi framkvæmd þyrfti að fara í umhverfismat. Þetta er auðvitað ekki gott. Það hafði ákveðna seinkunn í för með sér. Vegagerðin kærði auðvitað þessa ákvörðun en setti samhliða í gang umhverfismat þannig að það yrði ekki frekari seinkunn. Þess vegna er það verkefni komið af stað og í sitt ferli. Það eru svona hlutir sem hafa gert það að verkum að það eru ekki allir um borð í sömu vegferðinni. Þó að við séum með sambærilegt kerfi og hin Norðurlöndin þá er eitthvað annað hikst í okkar ferli. Það eigum við að fara yfir og við eigum að finna lausnir á því.“

Si_innvidafundur_harpa_17022021-21Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Þurfum skýrara, einfaldara og gegnsærra ferli

Á fundinum tekur Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undir með að skipulagsferlið sé allt of flókið og nefndi dæmi um hvað þetta er að gera þeim erfitt fyrir í hennar sveitarfélagi. „Flutningur á Hamraneslínu sem var kærður af nokkrum hraunavinum í lok ferilsins, alveg í blálokin, geti stoppað framkvæmdir á svæði þar sem þúsundir íbúða áttu að rísa. Þetta er ekki alveg eins og það á að vera því verkið var búið að fara í gegnum allt athugsemdaferlið og síðan var það kært á ákveðnum tímapunkti og maður spyr sig af hvaða völdum það var gert. Varðandi uppbyggingu í landinu viljum við að þetta flækjustig minnki og að samræmis sé gætt. Á einum stað er beðið um umhverfismat á meðan á sambærilegu svæði í næsta sveitarfélagi er ekki farið fram á það. Það er oft ekki hægt að skilja hvað býr þar að baki eða hver rökin eru. Við þurfum fyrst og fremst að hafa þetta skýrara, gegnsærra og einfaldara.“   

Si_innvidafundur_harpa_17022021-22Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

 

Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum:

https://vimeo.com/510320687