Fréttasafn



17. maí 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Allt það nýjasta á einum stað

Í Fréttablaðinu í dag fylgir sérblað um Amazing Home Show en Samtök iðnaðarins eru samstarfsaðilar sýningarinnar ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

Í blaðinu er viðtal við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, viðskiptastjóra á framleiðslusviði SI, sem segir það hlutverk samtakanna að efla íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans. Hér er hægt að lesa viðtalið:

„Við reynum að gera það með eins fjölbreyttum leiðum og hægt er. Það er því hluti af starfsemi okkar að koma að hinum ýmsu sýningum á einn eða annan hátt og undanfarið höfum við verið þátttakendur í þeim fjölmörgum. Má þar nefna Verk og vit, UT messuna og MaturINN á Akureyri. Fyrir skömmu vorum við einnig með tvær stórar sýningar á HönnunarMars.“ 

Jóhanna segist þekkja það í sínu starfi hversu öflug fyrirtæki finnast hér á landi. „Í heimsóknum mínum til þeirra tekst þeim oftar en ekki að koma mér verulega á óvart. Við viljum gjarnan vera með mismunandi farvegi til að gera atvinnulífið sýnilegt og aðgengilegt almenningi. Sýningar sem þessar eru ákveðin leið til að kynna starfsemi fyrirtækjanna og öll þau fjölbreyttu störf sem þar eru unnin. Jóhanna segir fjölmörg fyrirtæki koma að Amazing Home Show og er spennt að sjá hvað þau ætla að kynna. „Eins verðum við hjá Samtökum iðnaðarins og fjögur fagfélög innan okkar raða með á sýningunni. Það eru Meistarafélag bólstrara, Félag íslenskra gullsmiða, Félag íslenskra snyrtifræðinga og Klæðskera- og kjólameistarafélagið. Gestir geta komið við hjá okkur og spjallað við þetta flotta fagfólk og kynnt sér starfsemina. Eins ætla gullsmiðir að aðstoða gesti við hreinsun á skarti og snyrtistofur ætla að vera með kynningar á nýjum meðferðum sem eru að koma á markað.“ 

Jóhanna segir virkilega skemmtilegt að kynnast þessum iðngreinum enda sé mikil vöruþróun í gangi og fagmennska í fyrirrúmi. En hvaða þýðingu hefur sýning sem þessi fyrir markaðinn? „Þetta er fyrst og fremst skemmtileg leið fyrir fyrirtæki að koma sínum vörum á framfæri. Það er líka ákveðin uppsöfnuð þörf fyrir sýningar á borð við þessa þar sem fyrirtæki hafa haft aukin tækifæri og fjármagn til að þróa vörulínur sínar og rekstur undanfarin ár. Auk þess eru ný fyrirtæki að koma inn á markaðinn sem vilja taka þátt og vera sýnileg. Fyrir vanafasta neytendur eins og mig þá verður mjög áhugavert að kynna sér það sem er í boði. Það er ávinningur fyrir alla því fyrirtækin fá einstakt tækifæri til að ná til landsmanna og við sem leggjum leið okkar í Laugardalshöllina um helgina fáum á einum stað yfirgripsmikla sýn á það nýjasta á markaðnum.“

Fréttablaðið, 17. maí 2017.