Fréttasafn28. júl. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Alltof flókið kerfi borgarinnar

Í Morgunblaðinu er rætt við Jón Sigurðsson, formann Meistarafélags húsasmiða, sem segir meðal annars að leyfisveitingakerfið í Reykjavíkurborg sé farið að „lifa fyrir sjálft sig“. „Kerfið sem starfsmenn borgarinnar hafa búið til er orðið alltof flókið. Það er farið að viðhalda sjálfu sér og búa til störf til að stækka stofnanirnar. Vinnueftirlitið hefur gert þetta og heilbrigðiseftirlitið stefnir í sömu átt. Fyrir einyrkja er þetta orðið vonlaust, þetta er orðin svo mikil vinna. Þá ekki nema að fara rukka fyrir allan þann tíma sem fer í að ná í menn og skrifa þeim. Í mínu tilfelli dugði ekki að skrifa. Þeir svöruðu ekki. Því þurfti ég að eyða óheyrilegum tíma í að reyna að ná í þá.“ Jón, sem er jafnframt verktaki, vísar hér til framkvæmda í Tollhúsinu í Reykjavík. Vegna verksins hafi hann annars vegar þurft að sækja um afnotaleyfi af landi í eigu borgarinnar og hins vegar um leyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Þetta hafi tekið óratíma. Í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann, segir Jón: „Í gamla daga gekk þetta þannig fyrir sig að maður mætti niður á lögreglustöð og fékk sér sæti hjá lögregluþjóni. Við leystum það í sameiningu hvernig ætti að vinna verkið og maður gekk út með leyfið. Það tók á bilinu korter til klukkutíma, eftir því hvað verkið var umfangsmikið. Síðan færðist þetta yfir til borgarinnar. Þá fór þetta allt í tóma flækju.Fyrir fáum árum átti að vera búið að afgreiða allar beiðnir innan tiltekins dagafjölda, 7-9 daga ef ég man rétt. Þegar ég sótti um leyfi fyrir Tollhúsið var því ekki svarað í tvær vikur. Það var ekki hægt að ná í nokkurn mann. Þeir eru aðeins með símatíma milli kl. 8 og 9 á morgnana, fjóra daga í viku. Samkvæmt útboði átti verktíminn að vera þrír eða fjórir mánuðir. Ég fékk framkvæmdaleyfi rúmum mánuði eftir að ég reyndi að eiga við þetta.“

Í viðtalinu nefnir Jón einnig dæmi af verkefni þar sem rífa átti asbest af þaki í Bergstaðastræti þar sem flækjustigið hafi verið skelfilegt þrátt fyrir góðan undirbúning. Þá ræðir blaðamaður einnig við Steinar Þór Sveinsson um samskipti hans við skipulagsyfirvöld í borginni vegna breytinga á Laugavegi 80. En Steinar Þór hafi í eitt og hálft ár reynt að fá rökstuðning fyrir neitun á breytingunum en hafi ekki fengið svar.

Morgunblaðið, 27. júlí 2017.