Fréttasafn13. jan. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Almennt ekki tafir á afhendingu íbúða hjá verktökum innan SI

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í hádegisfréttum RÚV þar sem fjallað er um miklar seinkanir í aðflutningi aðfanga hingað til lands vegna kórónuveirufaraldursins. Sigurður segir að almennt hafi það ekki valdið töfum á afhendingu íbúða hjá verktökum sem eru innan Samtaka iðnaðarins. „Eins og er þá er þetta gríðarleg áskorun heilt yfir að fást við stöðuna. Bæði hefur aðfangakeðjan raskast þannig að það hafa stundum verið  tafir á afhendingu og svo Covid sem gerir það að verkum að það er erfiðara að skipuleggja sig varðandi mannafla. En heilt yfir hefur þetta tekist vel og það hafa almennt ekki verið tafir. En hins vegar er það áhugavert að þeir verktakar sem við ræðum við bera íslenskum framleiðslufyrirtækjum vel söguna og þau hafa náð að skila vörum á réttum tíma, til dæmis innréttingum.“ 

Ekki tenging við byggingavísitölu í nýbyggingum hjá félagsmönnum SI

Í fréttinni er vikið að töfum íbúða sem eru í byggingu í Gufunesi og hækkun íbúðaverðs þar m.a. vegna hækkunar byggingavísitölu. Sigurður segir: „Þeir verktakar sem við höfum rætt við og eru félagsmenn hjá okkur þeir eru almennt ekki með tengingu við byggingavísitölu á nýbyggingum.“ Þegar Sigurður er spurður hvort eitthvað sé að losna um þennan hnút í aðföngum segir hann: „Nei, það sést ekki til lands í þeim efnum. Það er ekki útlit fyrir að þetta lagist endilega á þessu ári.“ 

RÚV, 13. janúar 2022.