Fréttasafn3. jún. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Alþingi setji reglur um innviðagjald sveitarfélaga

„Dómurinn virðist veita sveitarfélögum ríka heimild til innheimtu gjalda og er í þessu samhengi vísað til markaðsforsendna. Þau geta hagað sér eins og einkaaðilar en þó er skýrt tekið fram að um þau gilda reglur um meðalhóf og jafnræði,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um nýfallin dóm Hæstaréttar um innviðagjald sem Reykjavíkurborg hefur innheimt vegna uppbyggingarreits í Vogabyggð. 

Íbúar Vogabyggðar fái þá innviði sem gjaldið átti að dekka

Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins vonist til að Alþingi setji reglur um innviðagjald sveitarfélaga eftir að Hæstiréttur dæmdi þau lögleg á miðvikudag. „Það er núna í höndum íbúa Vogabyggðar að ganga á eftir að þeir fái þá innviði sem gjaldið átti að dekka, enda er skylda borgarinnar til að standa við sínar skuldbindingar skýr.“  

Undirstrikar þörf á að koma þessu í betra horf

Þá segir Jóhanna Klara í Fréttablaðinu að það hafi skapað tortryggni að gjaldið sé ekki það sama á öllum uppbyggingarreitum og upphæðirnar mismunandi. Í fréttinni kemur fram að í síðasta mánuði hafi starfshópur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skilað tillögum þar sem vikið var að innviðagjaldinu og hugsanlegri lagasetningu. „Þetta undirstrikar að okkar mati þörfina á því að koma þessum málum í betra horf,“ segir Jóhanna Klara í Fréttablaðinu.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 3. júní 2022.

Frettabladid-03-06-2022_1