Fréttasafn26. apr. 2022 Almennar fréttir Menntun

Alþjóðleg ráðstefna um raunfærnimat

Alþjóðleg ráðstefna um raunfærnimat verður haldin á Íslandi dagana 19.-20. maí á Grand Hótel Reykjavík. Ráðstefnan er fyrir stefnumótendur, rannsakendur, sérfræðinga og hagsmunaaðila sem koma að þróun og framkvæmd raunfærnimats. Það er Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem heldur utan um ráðstefnuna og er þetta fjórða ráðstefnan af þessu tagi sem haldin er í Evrópu.

Hér má sjá dagskrá.

Á Íslandi hafa 6.168 einstaklingar lokið raunfærnimati frá árinu 2007 og á hverju ári bætast rúmlega 500 í þennan hóp. Í flestum tilvikum er raunfærnimat nýtt til að stytta nám í framhaldsskólum. Raunfærnimat hefur sannað sig sem annað tækifæri til náms sérstaklega fyrir starfsnámsbrautir. Á Íslandi hefur töluvert verið rætt um að mikilvægt sé að auka notkun á raunfærnimati þegar nemendur skrá sig í nám. Þar hefur til dæmis verið horft til Finnlands sem fyrirmyndar. Innan Evrópu og víðar er þessi umræða hafin og dæmi um lönd sem þegar hafa ákveðið að fara þá leið. Ráðstefnuspurningin fjallar um þetta: Hvernig getur raunfærnimat orðið órjúfanlegur hluti framkvæmdar og stefnumörkunar til að styðja við símenntun? Hér á Íslandi er byrjað að nýta raunfærnimat til að votta hæfni til ákveðinna starfa.

Dagskráin er tvískipt, fyrir hádegi verða fyrirlestrar og pallborðsumræður en eftir hádegi vinnustofur þar sem meðal annars verða kynnt árangursrík verkefni. Ráðstefnan fer fram á ensku.

Þemu ráðstefnunnar eru:

  • Raunfærnimat og atvinnulífið
  • Raunfærnimat og nám/þjálfun
  • Raunfærnimat og félagsleg sjálfbærni
  • Raunfærnimat og persónuleg þróun

Ráðstefnan er í umsjón Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) á Íslandi í samstarfi við Norræna tengslanetið um nám fullorðinna (NVL) og CEDEFOP.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um ráðstefnuna:

https://www.youtube.com/watch?v=m3ZRS61CVQE