Alvarlegt að umtalsverð fækkun er í íbúðauppbyggingu
Niðurstöðurnar eru alvarlegar því þær sýna að það er umtalsverð fækkun framundan í íbúðauppbyggingu eða um 17%. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í hlaðvarpsþættinum Borgin þar sem borgarfulltrúinn Sandra Ocares ræðir við Jóhönnu Klöru um nýja greiningu SI þar sem kemur fram að samkvæmt könnun meðal verktaka sem byggja íbúðir í eigin reikning er væntanlegur verulegur samdráttur á íbúðum í byggingu. Jóhanna Klara segir að gögnin séu ekki greind niður á sveitarfélög heldur sé verið að spyrja hvaða áform verktakar séu með til næstu 12 mánaða og farið sé yfir hverjar helstu hindranirnar séu og hvað þurfi að bæta.
Jóhanna Klara segir það vera ánægjulegt að sjá að þessi tölfræði sem hafi verið í kringum húsnæðisuppbyggingu og fólksfjölgun sé aðeins að lagast „en við vorum soldið lengi í svartholi með það.“ Hún segir að með þessari könnun komi fram hver áform verktakanna eru á móti gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem telji íbúðir í byggingu tvisvar á ári. Jóhanna Klara segir að stór þáttur í því að ekki sé byggt nóg sé vaxtaumhverfið í rekstrarumhverfi fyrirtækja og 86% verktaka sem taki fram að háir vextir séu að draga úr getu þeirra til uppbyggingar. „Það er alvarlegt mál og eitthvað sem að þarf að skoða.“
Þá segir Jóhanna Klara að það hafi verið sett strangari lántökuskilyrði og að sölutími íbúða sé að lengjast umtalsvert samkvæmt könnuninni sem sé áhyggjuefni því þetta sé fjárfrekur iðnaður. „Það er mikið í húfi.“ Hún segir að miklar hækkanir á opinberum gjöldum hafi áhrif og nefnir innviðagjöld, byggingargjöld og gatnagerðargjöld. Hún segir að í það hafi komið fram í fjölmiðlum að einn fjórði af kostnaði í íbúðabyggingu sé vegna opinberra gjalda og skatta.
Hér er hægt að nálgast hlaðvarpsþáttinn og hlusta á viðtalið í heild sinni.