Alvarlegt mál að ESB skerði aðgang að innri markaði
„Það er alvarlegt mál að verndarráðstafanir ESB skuli ekki ná til okkar. Þannig að framleiðsla íslenskra fyrirtækja sé ekki vernduð. Þær bitna því meðal annars á okkur á meðan fyrirtæki innan ESB njóta góðs af verndaraðgerðunum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í Viðskiptablaðinu um fyrirhugaða tollasetningu Evrópusambandsins gagnvart ríkjum innan EES á járnblendi, þar á meðal kísiljárn frá Íslandi og Noregi, sem muni hafa mjög neikvæð áhrif á iðnaðinn hérlendis.
Í fréttinni segir að grunnhugsunin með aðgerðunum sé að vernda evrópskan iðnað fyrir kísiljárni frá löndum með töluvert lægri framleiðslukostnað líkt og Kína, Indland eða Kasakstan. „Það hafa verið undirboð frá þessum aðilum á markaðinum en af þeim sökum er ESB að grípa til aðgerða. En undanskilur Ísland og Noreg frá þeim aðgerðum, sem bitnar á okkur. Við hefðum viljað njóta verndar, rétt eins og önnur fyrirtæki í þessari starfsemi innan ESB.“ Hann segir að Ísland hafi óskað eftir undanþágu eða hagfelldari útfærslum og sé það til skoðunar. „Evrópusambandið ber fyrir sig jafnræði, með réttu eða röngu, meðal annars vegna mikillar framleiðslu í Noregi. En íslensk stjórnvöld hafa talað ötullega fyrir hagsmunum Íslands sem skilar vonandi árangri.“
Þá kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins að sögn Sigurðar þurfi að hafa í huga hvort þetta sé fyrirboði um hvað koma skuli frá Evrópusambandinu en sem fyrr segir hafi það aldrei gerst að Ísland njóti ekki verndarráðstafana. „Þá geta alls konar vörur orðið undir í framtíðinni og skaðað okkar hagsmuni. Þetta er auðvitað sérstakt af ýmsum sökum. Í fyrsta lagi vegna þess að við erum í EES og höfum því innleitt hluta af evrópska regluverkinu. Fyrirtæki hér á landi í ýmissi starfsemi hafa tekið á sig skyldur og kröfur sem regluverkið knýr á, með tilheyrandi kostnaði, til þess að njóta ávinningsins af því að eiga greiðan aðgang að innri markaði ESB. Það er því mjög skrýtið að við séum að taka upp regluverkið ef aðgangur að innri markaðnum er skertur.“
Í niðurlagi fréttarinnar segir Sigurður að ekki sé öll nótt úti enn að við fáum undanþágu þó að það sé langt í frá sjálfgefið. „Þetta á að taka gildi eftir þrjár vikur og vara í 200 daga. Ef þetta fer þannig þá þurfum við að vona það að hagsmunagæslan á þessu tímabili beri þann árangur að við verðum undanþegin eftir það.“
Viðskiptablaðið, 28. júlí 2025.