Fréttasafn



20. jan. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Alvarlegt þegar grunnþörf fólks fyrir íbúðir er ekki mætt

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Markaðnum í Fréttablaðinu að skortur á íbúðum í sölu sé alvarlegt vandamál þar sem fjallað er um íbúðamarkaðinn og þær upplýsingar sem koma fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. „Hillurnar eru nánast tómar. Það hefur dregið verulega úr íbúðum í sölu á sama tíma og eftirspurn hefur verið mikil. Íbúðauppbygging snýst um fólk og þarfir þess. Það er alvarlegt þegar grunnþörf fólks fyrir íbúðir er ekki mætt. Afleiðingin hefur verið mikil hækkun á verði íbúða, aukin verðbólga og hærri vextir.“ Ingólfur segir einnig í Markaðnum að afleiðingar þess muni sjást í hækkandi kaupverði íbúða þar sem fjöldi seljist á yfirverði. „Fram kemur einnig í skýrslunni að greiðslubyrði óverðtryggðra lána hefur hækkað umtalsvert sem er afleiðing af hækkandi vöxtum en Seðlabankinn hefur hækkað vexti talsvert hratt undanfarið samhliða þrálátri verðbólgu yfir markmiði bankans sem að stórum hluta er til komin vegna hækkunar húsnæðisverðs.“

Ástæða slæmrar stöðu á íbúðamarkaði er bæði á framboðs- og eftirspurnarhliðinni

Þá segir Ingólfur að ástæður fyrir slæmri stöðu á íbúðamarkaði sé að finna bæði á framboðs- og eftirspurnarhliðinni. „Þetta er samspil þátta á framboðs- og eftirspurnarhlið íbúðamarkaðarins. Á framboðshliðinni hefur íbúðum í byggingu fækkað umtalsvert. Þá þróun fórum við að sjá fyrir strax undir lok árs 2019 í talningu Samtaka iðnaðarins sem framkvæmd er tvisvar á ári. Voru íbúðir í byggingu í september síðastliðnum til dæmis rétt tæplega 3.400 samanborið við tæplega 5.000 íbúðir í september 2019. Á eftirspurnarhliðinni hefur verið vöxtur vegna lágra vaxta, fólksfjölgunar, kaupmáttarvaxtar og breyttra íbúðaþarfa vegna Covid19 faraldursins. Ljóst er að litið til framtíðar er eftirspurnin enn talsvert sterk. Hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til dæmis metið það svo að byggja þurfi 30 þúsund íbúðir á þessum áratug og það sé framhlaðið þannig að það þarf um 3.500 á ári næstu árin. Við erum að sjá mikla fólksfjölgun nú í landinu samhliða uppsveiflunni í hagkerfinu. Aukinn fólksfjöldi krefst aukins fjölda íbúða sem mæti þörfum íbúa. Það er verkefnið litið til næstu ára.“

Byggja þarf meira og tryggja stöðuga íbúðauppbyggingu

Jafnframt kemur fram hjá Ingólfi að til þess að staðan batni sé ljóst að það þurfi að byggja meira. „Það er ljóst að við þurfum að byggja meira. Við þurfum sveigjanleika til að bregðast við svona stöðu. Skapa verður nægjanlegt framboð húsnæðis til að mæta þörfum íbúa landsins. Það þarf aukið framboð á lóðum, sem er á ábyrgð sveitarfélaganna. Ráðast þarf í nauðsynlegar breytingar í skipulagsmálum og umhverfi byggingarmála. Tryggja verður stöðuga íbúðauppbyggingu þar sem dregið er úr sveiflum í byggingariðnaði.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 20. janúar 2022.

Frettabladid-20-01-2022