Fréttasafn



2. sep. 2015 Mannvirki

Ályktun um lækkun tryggingagjalds

Stjórn Félags ráðgjafaverkfræðinga (FRV) lýsir yfir miklum vonbrigðum með að enn er tryggingagjald hér á landi of hátt og ekkert bólar á áformum um að lækka það þrátt fyrir að atvinnuleysið hafi minkað mikið. Á sama tíma standa fyrirtækin frammi fyrir háum kjarasamningsbundum launahækkunum og væri lækkun tryggingagjalds mikilvægt mótvægi við þær hækkanir.

Í nýlegu viðtali við fjármálaráðherra í Morgunblaðinu fer hann ítarlega yfir hverju breytt verður í ríkisrekstrinum í kjölfar þess ánægulega viðsnúnings sem orðinn er á rekstri ríkisins. Boðað er afnám tolla á fatnaði og skóm og svo matvælum auk þess að boða vöxt í útgjöldum til velferðarmála.  En hvergi var minnst á tryggingagjaldið eða áform um að lækka það líkt og flestir stjórnmálaflokkar lofuðu í aðdraganda síðustu kostninga. Mikilvægt er að færa gjaldið  niður til þess sem það var áður en atvinnuleysi jókst skyndilega í kjölfar hamfaranna 2008.

Tryggingagjald er lagt á launakostnað fyrirtækja og samanstendur af almennu tryggingagjaldi og atvinnuleysistryggingagjaldi. Í heild sinni er gjaldið 7,49% af öllum launagreiðslum í landinu. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtæki þar sem kostnaður einskorðast  fyrst og fremst við laun og launatengd gjöld eins og hjá verkfræðistofum og öðrum tæknifyrirtækjum.  Hátt tryggingagjald dregur úr afli fyrirtækja í að ráða til sín fleiri starfsmenn og veikir einnig samkeppnishæfni þeirra við erlend fyrirtæki. 

Hækkun tryggingagjalds var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum að skyndilegu atvinnuleysi, nú þegar það á ekki lengur við er brýnt að lækka gjaldið.

Stjórn FRV skorar því á stjórnvöld að lækka tryggingagjaldið sem fyrst.