Fréttasafn



12. des. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Áminning til nýrrar ríkisstjórnar að setja orkumál í forgang

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, og Hjálmar Helga Rögnvaldsson, forstöðumann viðskiptaþróunar og orkumiðlunar hjá Orku náttúrunnar, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um hækkun raforkuverðs en samkvæmt greiningu SI byggt m.a. á mælingum Hagstofunnar hefur rafmagnsverð hækkað um 13% á síðustu 12 mánuðum. Sigurður segir að þetta sé mjög skörp hækkun. „Fimm ár þar á undan hækkaði raforkuverð samtals um 17%. Á sama tíma hækkaði verð á raforku til stórnotenda um meira en 30% á fimm ára tímabili. Síðan erum við að sjá það af því núna er komið meira gagnsæi í verðmyndun á raforku með tilkomu markaðar sem er Vonarskarð að það eru meiri hækkanir í kortunum. Raforka til afhendingar í byrjun næsta árs hækkaði núna nýlega um 30%. Þetta eru ákveðnar vísbendingar um þann vanda sem að steðjar. Til að taka af öll tvímæli um það að markaðurinn sjálfur er ekki vandamálið þarna heldur er vandinn einfaldlega sá að framboð á raforku hefur ekki þróast í takt við vöxt og viðgang samfélagsins.“

Ekki að ástæðulausi að hefur verið talað fyrir nýjum virkjunum um margra ára skeið

Sigurður segir að þetta sé lögmál framboðs og eftirspurnar. „Þarna er það að birtast okkur í sinni tærustu mynd. Það er ekki að ástæðulausu að Samtök iðnaðarins og fjölmargir aðrir hafa talað fyrir nýjum virkjunum núna um margra ára skeið. Það er einfaldlega vegna þess að það er alveg ljóst að við kæmumst í þessa stöðu fyrr en seinna. Hingað til hefur náttúrulega verið næg raforka á Íslandi þannig að þetta hefur ekki verið vandamál en við erum að sjá ákveðna breytingu núna og vandamálið er það að ný raforka kemur ekki inn á kerfið fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 til 3 ár.“

Alltof flókið og erum að bregðast of seint við

Þá segir Sigurður í viðtalinu að til að setja þetta í samhengi sé undirbúnings og framkvæmdatími fyrir nýja virkjun miðað við núverandi löggjöf um 12 ár. „Þannig að þetta er alltof alltof flókið. Við erum auðvitað að bregðast alltof seint við en þetta er þá auðvitað áminning til nýrrar ríkisstjórnar um að setja þessi mál í algjöran forgang.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Vísir, 11. desember 2024.