Árangur hugverkaiðnaðar byggir á markvissri stefnu en ekki heppni
Hugverkaiðnaður hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu árum en útflutningstekjur greinarinnar hafa tvöfaldast á aðeins fimm árum og voru 309 milljarðar króna á síðasta ári. Og við vitum að þetta er aðeins upphafið. Þetta segja Erla Tinna Stefánsdóttir og Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjórar á iðnaðar- og hugverkasviði SI, í grein á Vísi með yfirskriftinni Ísland 2.0 – Mótum framtíðina saman. Þær segja að hugverkaiðnaður, þessi fjölbreytti og kraftmikli iðnaður, hafi á fáum árum orðið einn af burðarásum íslensks útflutnings. Sterkur og fjölbreyttur útflutningur sé forsenda þess að við getum áfram byggt upp og viðhaldið góðum lífskjörum á Íslandi. Fyrir lítið hagkerfi séu þetta því ekki lítil tíðindi og lykilatriði til að tryggja áframhaldandi verðmætasköpun og þar með sterk lífskjör í landinu.
Þær segja í greininni að Samtök iðnaðarins telji að þessi fjórða stoð þjóðarbúsins geti orðið sú stærsta áður en þessi áratugur sé á enda. Ef rétt sé á málum haldið gætu útflutningstekjur greinarinnar orðið allt að 640 milljarðar árið 2029. Rúmlega 18.000 manns starfi í tækni- og hugverkaiðnaði í dag og á næstu árum geti orðið til þúsundir nýrra háframleiðnistarfa sem skili þjóðinni bæði verðmætum og tækifærum. Þær segja þetta ekki vera heppni heldur árangur sem byggi á markvissri stefnu og skýrri framtíðarsýn.
Næstu skref mótuð með skýrum tillögum
Þá kemur fram í grein þeirra Erlu og Nönnu að í dag fari fram ársfundur Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins þar sem félagsmenn í tækni- og hugverkaiðnaði móti næstu skref. Það hafi sjaldan verið mikilvægara því þrátt fyrir að íslenskur hugverkaiðnaður skíni skært séu blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum, tollastríð hafi áhrif á útflutning, birgðakeðjur sem fyrir örfáum árum þóttu sjálfsagðar séu brotnar upp og óvissan valdi óstöðugleika á mörkuðum. Þær segja að þá skipti sköpum að þétta raðir fyrirtækja í tækni- og hugverkaiðnaði enn frekar og hvetja stjórnvöld áfram með skýrum tillögum að öflugra starfsumhverfi fyrirtækja, til að skapa skilyrði hér á landi þar sem fyrirtæki í þessum iðnaði geti blómstrað.
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Vísir, 4. desember 2025.

