Áratuga fjársvelti Vegagerðarinnar hefur kostað mörg mannslíf
Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Ísland ehf. og formaður Mannvirkis - félags verktaka, skrifar í grein á Vísi með yfirskriftinni Við verðum að viðhalda vegum. Þar segir Sigþór meðal annars að vegirnir okkar séu margir hverjir orðnir úr sér gengnir. Þeir þoli illa þá miklu umferð sem um þá fari. „Ég fullyrði blákalt að áratuga fjársvelti Vegagerðarinnar, að minnsta kosti frá bankahruninu, hefur kostað mannslíf og það mörg.“
Sigþór segir jafnframt í greininni:
- „Við heyrum af blæðingum á þjóðveginum þar sem notuð er ódýr lausn (klæðing) sem ekki á við lengur, vegna umferðarþunga.
- Við heyrum af banaslysum þar sem vegrið hefði hindrað útafakstur.
- Við heyrum af slysum þar sem kantar of mjórra vega, gefa sig.
- Flest þekkjum við ónotatilfinninguna þegar við mætum risastórum dráttarbílum á mjóum þjóðvegum okkar og flest allra alvarlegustu slysin og banaslysin verða við árekstur bíla sem koma úr gagnstæðri átt.
Við getum ekki haldið svona áfram. Umferðarþunginn eykst ár frá ári og Vegagerðin verður að fá aukið fé til ráðstöfunar. Við erum áratugum á eftir áætlun. Ný ríkisstjórn verður að finna leiðir til að forgangsraða peningum til vegamála, sérstaklega viðhalds vega, á næstu árum og verkefnið er ekki átaksverkefni. Að bæta ástandið tekur okkur áratugi.
En okkur vantar sárlega nýja vegi, nýjar brýr, ný jarðgöng og slitlag á þúsundir kílómetra af malarvegum. Ný ríkisstjórn þarf að vera hugrökk og finna aðrar leiðir til að fjármagna þessar framkvæmdir og forgangsraða takmörkuðu skattfé til viðhaldsverkefna.
Aðferðir til þess að fjármagna nýframkvæmdir til dæmis með greiðslu fyrir notkun er vel þekktar og fordæmin eru að finna um alla Evrópu. Meira um það síðar.
Öryggi okkar allra á vegum úti er í húfi. Þetta er ákall um úrbætur. Við sættum okkur ekki við banaslys í umferðinni.“
Hér er hægt að lesa grein Sigþórs í heild sinni.
Vísir, 21. október 2024.