Fréttasafn22. jún. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Áratugur nýsköpunar fram undan

Fram undan er tímabil lítils hagvaxtar verði ekkert að gert. Á næstu áratugum þarf að skapa tugþúsundir nýrra starfa og aukin verðmæti til að standa undir þeim lífsgæðum sem við landsmenn viljum búa við. Auðlindir landsins munu áfram verða uppspretta verðmætasköpunar, eins og verið hefur um aldir, og hefðbundnar atvinnugreinar munu leggja sitt af mörkum til þjóðarbúsins en vöxturinn þarf að koma með því að virkja hugmyndaauðgi landsmanna sem eru engin takmörk sett. Þess vegna er nýsköpun ekki ein af leiðunum fram á við heldur eina leiðin. Þetta kemur meðal annars fram í grein Árna Sigurjónssonar, formanns SI, og Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í grein þeirra sem birt er í helgarútgáfu Morgunblaðsins undir yfirskriftinni Áratugur nýsköpunar. Þeir segja að nýsköpun skapi störf, verðmæti, útflutningur aukist og nýjar lausnir líti dagsins ljós sem bæti líf okkar. Á dögunum hafi Samtök iðnaðarins gefið út tímarit um nýsköpun þar sem rætt sé við frumkvöðla og stjórnendur fyrirtækja um nýsköpun og hvað þurfi til að við náum frekari árangri á þessu sviði. „Það er okkar framlag til umræðunnar og vekur vonandi frekari áhuga á viðfangsefninu.“

Stjórnvöld spila lykilhlutverk í ytri skilyrðum

Í grein sinni segja þeir að ytri skilyrði þurfi að styðja við það ferli sem nýsköpun sé og þar spili stjórnvöld lykilhlutverk. Halda þurfi áfram á þeirri framfarabraut sem nú hafi verið lögð grunnur að enda sé hugvitið án landamæra og mikil samkeppni ríki milli landa um það hvar það sé virkjað í þágu verðmætasköpunar og nýrra starfa. Stórauknir hvatar til nýsköpunar geti skilað því að hér verði til þrjú til fimm fyrirtæki á borð við Marel, Össur og CCP á hverjum áratug í stað eins eða einskis.

Þá kemur fram að sú fjárfesting í framtíðinni sem Alþingi hafi nú leitt í lög hafi verið Samtökum iðnaðarins og fjölmörgum félagsmönnum hjartans mál um langa hríð. Það sé því ærin ástæða til að gleðjast. Hækkun á hlutfalli og hámarksfjárhæð endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, hækkun skattaafsláttar til einstaklinga vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum, stofnun Kríu – sjóðs sem veitir nýsköpunarfyrirtækjum súrefni og auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í sjóðum sem fjárfesta eingöngu í litlum og meðalstórum fyrirtækjum séu merki um skýran vilja stjórnvalda til að bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Enn verk að vinna því önnur ríki vinna stöðugt að umbótum

Í niðurlagi greinarinnar segja þeir að ljóst sé að margt hafi breyst til batnaðar á síðustu árum í starfsumhverfi nýsköpunar á Íslandi, ekki síst eftir þær mikilvægu breytingar sem nú hafa nýlega verið lögfestar. Viðhorfsbreytingin sé áþreifanleg og almennur stuðningur sé við aðgerðir í nýsköpunarmálum. „Enn er þó verk að vinna því önnur ríki vinna stöðugt að umbótum og auka því forskot sitt ef við bregðumst ekki við á þeim hraða sem sæmir því kraftmikla starfsumhverfi sem nýsköpun er. Staða Íslands í nýsköpunarmálum og skilyrði til nýsköpunar hafa tekið ótrúlegum framförum og mörg íslensk fyrirtæki, stór og smá, eru að gera spennandi hluti eins og lesa má í nýútgefnu tímariti Samtaka iðnaðarins um nýsköpun. Jarðvegurinn er því frjór og fram undan gæti hæglega verið áratugur uppskeru – áratugur nýsköpunar þar sem fyrirtæki vaxa hratt og verðmætin aukast, okkur öllum til heilla.“

Hér er hægt að lesa grein þeirra Árna og Sigurðar í heild sinni. 

Morgunbladid-20-06-2020